Skólareglur Auðarskóla

Smelltu hér fyrir PDF útgáfu af skólareglum Auðarskóla.

Til að tryggja gott skólastarf setur skólasamfélagið í Auðarskóla þessar reglur og gilda þær á skólatíma og í öllu starfi á vegum skólans. Skólareglur gilda fyrir öll þau sem að skólastarfinu koma nema annað sé tekið fram og öllum ber að kynna sér skólareglurnar. Reglurnar eru settar til að tryggja öryggi, farsæld og réttindi allra barna. Markmiðið er að hafa væntingar skýrar og leiðsögn ætíð í forgrunni.  Til hliðsjónar við gerð skólareglna eru lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, grunnskólalög, lögfestur Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, barnaverndarlög og menntastefna Dalabyggðar.

 

Reglur þessar gilda í öllu starfi Auðarskóla innan og utan skólahúsnæðis. Starfsfólk setur fram nánari reglur á sínum starfsstöðum. Auk þess semja nemendur sér bekkjarsáttmála í upphafi hvers skólaárs. Bekkjarsáttmála má sjá hér.

Fyrir starfsfólk að muna

  • Viðbrögð skulu ætíð taka mið af aldri, þroska og aðstæðum nemenda og vera í samræmi við réttindi þeirra.
  • Framkoma okkar gagnvart nemendum hefur kennslugildi.
  • Trygg tengsl milli starfsfólks og nemenda er forsenda þess að nemendum líði vel í skólastarfi.
  • Alltaf skal bregðast við á uppbyggilegan hátt og með það að leiðarljósi að leiðbeina og styðja nemendur.
  • Skráning atvika tryggir yfirsýn, samfellu og jafnræði í viðbrögðum. Skráning skal vera hlutlæg, lýsandi og nýtast til reglulegrar endurskoðunar stuðningsáætlana.
  • Samráð við foreldra er lykilatriði til að finna farsælar lausnir.
  • Viðvarandi eða alvarleg mál eru tekin fyrir í stuðningsteymi eða í samráði við skólaþjónustu og/eða barnavernd.
  • Viðbrögð skulu ávallt vera í samræmi við lög, réttindi barna og menntastefnu Dalabyggðar.

Fyrir nemendur að muna

  • Nemendur eiga rétt á að rödd þeirra heyrist í skólanum og að tekið sé mið af skoðunum þeirra í samræmi við aldur og þroska.
  • Mikilvægt er að nemendur virði rétt annarra.
  • Besti hagur nemenda skal ávallt vera í forgrunni þegar ákvarðanir eru teknar sem varða skólastarfið.
  • Nemendum skal tryggt öryggi, virðing og tilfinning fyrir að tilheyra skólasamfélaginu.
  • Hver nemandi reynir eftir fremsta megni að eiga jákvæð samskipti og taka þátt í skólastarfi.
  • Nemendur leggja sitt af mörkum til að skapa vinnufrið og góða samvinnu.
  • Mikilvægt er að leita til kennara, umsjónarkennara eða annars starfsmanns ef upp kemur vandi.
  • Með því að fylgja skólareglum stuðla allir nemendur að jákvæðu og öruggu skólasamfélagi.

Fyrir forráðamenn að muna

  • Hagur allra nemenda er ávallt í forgrunni og sjónarmið þeirra skulu virt í samræmi við aldur og þroska.
  • Forráðamenn eru lykilaðilar í samstarfi við skólann og mikilvægt er að samskipti séu lausnamiðuð og uppbyggileg.
  • Forráðamenn skulu fylgjast með skólasókn, námsframvindu og líðan barnsins og miðla upplýsingum til skólans sem geta haft þýðingu fyrir velferð þess eins og getið er í lögum um grunnskóla.
  • Þegar upp koma áskoranir er mikilvægt að forráðamenn taki þátt í sameiginlegri áætlun með skóla og stuðningsteymi barnsins.
  • Forráðamenn skulu kynna sér skólareglur og styðja barn sitt í að fylgja þeim, þannig að væntingar séu skýrar og samræmi sé milli heimilis og skóla.
  • Traust, virðing og reglubundin upplýsingamiðlun milli heimilis og skóla er lykill að farsæld og öryggi barna.

Ástundun

  • Skólinn er sameiginlegur vinnustaður okkar allra. Við vinnum störf og verkefni sem okkur eru falin af ábyrgð og eins vel og við getum.
  • Við göngum veð um okkar námsgögn og starfsstöðvar.
  • Við mætum vel undirbúin fyrir daginn.
  • Við gefum ávallt vinnufrið.
  • Við berum virðingu fyrir ólíkum hlutverkum og aðstæðum annarra.
  • Við nýtum tímann vel og berum virðingu fyrir tíma annarra.

Samskipti

  • Samskipti í skólanum skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu, vinsemd og fagmennsku.
  • Við fylgjum samþykktum reglum.
  • Við erum kurteis.
  • Við sýnum hvert öðru virðingu.
  • Við erum tillitssöm og hlustum hvert á annað.
  • Við förum eftir fyrirmælum starfsmanna.
  • Við minnum hvert annað á reglur skólans á uppbyggilegan hátt.

Almenn umgengni

  • Við göngum vel um skólann okkar og eigur hans, bæði innandyra og utan.
  • Við virðum eigur okkar sjálfra og annarra.
  • Við skiljum eftir heima þau tæki og tól sem geta valdið skaða.
  • Við fylgjum umgengnisreglum og sérstökum reglum fyrir hverja starfsstöð.

Skólasókn og viðvera

  • Við mætum á réttum tíma.
  • Við tilkynnum forföll eins fljótt og auðið er til viðeigandi aðila.
  • Við sækjum um lengri leyfi samkvæmt reglum skólans og/eða sveitarfélags.
  • Við berum ábyrgð á að vinna upp það sem við missum af vegna fjarveru.

Heilbrigði

  • Við temjum okkur heilbrigðar lífsvenjur til að stuðla að vellíðan og árangri.
  • Við komum vel útsofin og tilbúin til vinnu og náms.
  • Við borðum hollan mat í skólanum.
  • Við neytum ekki sælgætis eða gosdrykkja á skólatíma nema með sérstöku leyfi.
  • Við neytum ekki koffíns, hvorki í drykkjar- eða púðaformi.
  • Við neytum ekki tóbaks, nikótínpúða, rafretta og annarra vímuefna.
  • Við komum hvorki með né beitum vopnum eða áhöldum sem geta talist hættuleg í skólanum eða á vettvangi hans.
  • Við sem notum reiðhjól, bretti eða önnur smáfarartæki (smelltu hér fyrir skilgreiningu smáfarartækja í lögum) skulum ætíð bera viðurkenndan hlífðarhjálm. Samkvæmt umferðarlögum 77/2019, XIV. kafla, 79. gr., ber börnum yngri en 16 ára skylda til að nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar og akstur smáfarartækja.
  • Við ferðalög í bifreiðum skulum við öll nota öryggis- og verndarbúnað í samræmi við lög. Samkvæmt 77. gr. umferðarlaga ber hverjum þeim sem situr í sæti með öryggisbelti að nota það. Börn undir 135 cm að hæð skulu nota viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan viðeigandi öryggisbúnað. Börn undir 150 cm að hæð mega ekki sitja í framsæti bifreiðar með virkan öryggispúða.

Símafrí

Símafrí í skóla er mikilvægt til að stuðla að einbeitingu og vinnufriði í námi. Að auki er þetta viðbragð til að tryggja eins og kostur er persónuvernd og öryggi nemenda með því að koma í veg fyrir óheimilar upptökur eða dreifingu mynda, myndskeiða eða hljóðupptaka úr skólastarfinu.

  • Nemendur nota ekki síma á skólatíma.
  • Nemendur nota ekki þráðlaus heyrnartól sem tengd eru eigin síma á skólatíma.
  • Nemendur geyma tæki í persónulegri eigu í læstum skáp, í símakassa hjá ritara, umsjónarkennara eða heima.

Skólalóð

  • Við göngum snyrtilega um skólalóðina og hjálpumst að við að halda henni hreinni.
  • Við förum ekki út af skólalóðinni án leyfis starfsfólks.
  • Við geymum hjól, hjólabretti, línuskauta og önnur farartæki á viðeigandi stað á skólatíma.

Brot á skólareglum Auðarskóla og viðbrögð

Viðbrögð við brotum á skólareglum Auðarskóla byggja á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, grunnskólalögum, lögfestum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnaverndarlögum og menntastefnu Dalabyggðar. Starfsfólk og forráðamenn bera ábyrgð á að skapa nemendum öruggt og hvetjandi umhverfi þar sem væntingar eru skýrar, leiðsögn stöðug og æskileg hegðun er styrkt.

Viðhorf okkar til hegðunar nemenda byggir á nýjustu þekkingu á því sviði rannsókna. Samkvæmt nútímarannsóknum er hegðun alltaf svörun við ákveðnum aðstæðum. Því felast viðbrögð við brotum á skólareglum ekki í því að leggja alla ábyrgð á nemendur heldur í því að starfsfólk og forráðamenn leiðbeini, styðji og aðstoði nemendur við að finna uppbyggilegar leiðir til þátttöku í skólastarfi. Viðbrögð skulu ávallt miða að því að styrkja nemendur á þeim þáttum sem tilteknir eru í farsældarlögunum. Markmiðið með lögum þeim er að tryggja aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðislegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar. Viðbrögð skulu ætíð taka mið af aldri, þroska og aðstæðum nemenda og vera í samræmi við réttindi þess.

Megináherslur

  • Hagur nemenda er ávallt lagður til grundvallar og raddir þeirra skulu fá að heyrast og hafa vægi í úrvinnslu þeirra mála í samræmi við aldur og þroska.
  • Alltaf er litið til þess að nemendur tilheyri skólasamfélaginu og fái að upplifa öryggi og virðingu.
  • Viðbrögð eiga að vera leiðbeinandi og stuðningsrík, ekki refsandi.
  • Forráðamenn, starfsfólk og nemendur vinna saman að lausnum.
  • Nemendum eru gefin skýr fyrirmæli svo þeir viti hvers er ætlast af þeim.
  • Nemendum er kennd æskileg hegðun í stað hinnar óæskilegu með leiðsögn og stuðningi.
  • Æskilegri hegðun nemenda er veitt sérstök athygli og hún styrkt.
  • Skráning er gerð eftir þörfum til að halda utan um tíðni hegðunar.
  • Skráning og eftirfylgni alvarlegri brota eiga að tryggja áreiðanlegt mat á árangri.
  • Skráning skal vera lýsandi, hlutlæg og nýtast í reglubundinni endurskoðun stuðningsáætlana.

Almennt viðbragðsferli

Viðbrögð skulu ávallt byggja á bestu hagsmunum nemenda og taka mið af aldri þeirra, þroska og aðstæðum. Jafnframt skulu viðbrögð vera eins hófleg og unnt er, stigvaxandi eftir þörfum og sæta reglubundinni endurskoðun eins og gert er ráð fyrir í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Við allar ákvarðanir sem varða nemendur skal þeim gefinn kostur á að tjá skoðanir sínar í samræmi við aldur og þroska.

  1. Strax í aðstæðum: Starfsmaður á vettvangi bregst við með skýrri leiðsögn, tryggir öryggi og hjálpar nemanda að átta sig á væntingum.
  2. Eftirfylgni: Eftir þörfum fær nemandi stuðning til að bæta ráð sitt, t.d. með aðstoð við að ljúka verkefnum, róast eða laga eftir sig.
  3. Samráð: Eftir þörfum metur umsjónarkennari og/eða stuðningsteymi aðstæður og leggur til úrbætur í námsumhverfi og stuðningi.
  4. Samtal við heimili: Eftir þörfum fá forráðamenn upplýsingar á uppbyggilegan og lausnamiðaðan hátt, með það að leiðarljósi að samvinna heimila og skóla stuðli að farsæld nemenda.
  5. Frekari úrræði: Ef áskoranir eru viðvarandi er kallað saman stuðningsteymi og/eða tengilið farsældar sem metur þörf á frekari úrræðum og gerir áætlun í samvinnu við nemanda, forráðamenn og umsjónarkennara. Mál nemanda er tekið fyrir á nemendaverndarráðsfundi.

Sértæk viðbrögð til viðbótar við hið almenna viðbragðsferli

Ástundun og skólasókn

Ef nemandi sinnir ekki verkefnum, skerðir vinnufrið eða er með ófullnægjandi mætingu er málið tekið upp með nemanda og forráðamönnum. Námsefni og námsumhverfi er skoðað, endurmetið og breytt eftir þörfum. Viðvarandi eða óeðlilegar fjarvistir kalla á aukna samvinnu heimilis, skóla og annarra fagaðila sem koma að nemandanum hverju sinni.

Samskipti

Ef upp koma óhjálpleg samskipti leiðbeinir starfsmaður nemendum og hvetur til uppbyggilegra lausna, m.a. með því að biðjast afsökunar og/eða taka við afsökunarbeiðni.

Umgengni og eignir

Nemandi sem gengur illa um eða veldur skemmdum fær leiðsögn og stuðning til að bæta þar úr, t.d. með því að ganga frá eða taka þátt í viðgerð.

Heilbrigði og öryggi

Sælgæti, gos og koffín er gert upptækt og afhent í lok dags. Neysla og varsla vímuefna og nikótínvara er skráð og forráðamenn látnir vita. Við tóbaks-, áfengis- og vímuforvarnir í Auðarskóla skal miðað við staðreyndablað frá Embætti landlæknis. Neysla slíkra efna fellur undir áhættuhegðun barns samkvæmt skilgreininga- og flokkunarkerfi í barnavernd og er þar af leiðandi tilkynningarskyld.

Bregðist forráðamenn ekki við ábendingum starfsfólks skóla fellur það undir vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit barns samkvæmt skilgreininga- og flokkunarkerfi í barnavernd og er þar af leiðandi tilkynningarskylt.

Komi nemandi með vopn eða beiti vopni er atvikið ætíð metið sem öryggismál og tilkynnt tafarlaust til skólastjóra, forráðamanna og eftir atvikum til lögreglu. Með vopni er átt við hvers kyns hluti eða áhöld sem notuð eru til að hóta, gera tilraun til að valda eða valda öðrum líkamlegum skaða. Slík atvik kalla á tafarlaus viðbrögð sem unnin eru í nánu samráði við forráðamenn og/eða barnavernd eftir eðli máls.

Símafrí

Ef nemandi rýfur símafrí er tækið tekið í vörslu skólans og því skilað í lok dags. Endurtekin brot kalla á samtal við nemanda og forráðamenn.

Skólalóð

Nemendum ber að virða reglur um skólalóð. Ef nemandi fer út af skólalóð án leyfis eða brýtur reglur leiðbeinir starfsmaður nemandanum og forráðamenn eru upplýstir ef þörf er á.

Skólaakstur og ferðalög

Reglur skólans gilda í skólaakstri og á öllum ferðalögum á vegum skólans. Ef nemandi brýtur alvarlega af sér eða stofnar öryggi annarra í hættu getur skólastjóri gripið til þess úrræðis að senda nemanda heim á kostnað forráðamanna. Ákvörðun um slíkt úrræði skal vera byggð á skýru broti á skólareglum. Forráðamenn eru upplýstir án tafar með símtali.

Um tilkynningarskyldu grunnskóla til Barnaverndar

Um tilkynningar stofnunarinnar til barnaverndar gilda barnaverndarlög nr. 80/2002. Samkvæmt 17. gr. laganna ber öllum þeim sem starfs og stöðu sinnar vegna hafa afskipti af börnum skylda til að tilkynna barnaverndarþjónustu ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 16. gr. laganna.

Skylda þessi er sérstaklega lögð á starfsfólk skóla. Hún er ríkari en hin almenna tilkynningarskylda og felur í sér að fylgst sé sérstaklega með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem unnt er og að gera barnaverndarþjónustu tafarlaust viðvart ef grunur vaknar um að barn búi við óviðunandi aðstæður.

Eftir fremsta megni eru tilkynningar til Barnaverndar unnar í samvinnu við nemendur og fjölskyldur og þau höfð með í ráðum eftir því sem eðlilegt þykir og aðstæður leyfa.

Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum gengur framar ákvæðum um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Samþykkt af starfsfólki á starfsdegi 6. október 2025.

Samþykkt á 145. fundi fræðslunefndar þann 11. nóvember 2025.

Samþykkt á fundi skólaráðs þann 14. nóvember 2025.

Síðast uppfært 14. nóvember 2025.