Leiðsagnarmat

Leiðsagnarmat er námsmat til að læra af (leiðsögn) og er skipulagt sem hluti af námi hvers og eins. Leiðsagnarmat er mat sem lagt er fyrir nemendur jafnt og þétt allt námsárið með það að markmiði að nota niðurstöðurnar til að bæta námsárangur og kennslu. Matið á að nýtast bæði kennurum og nemendum:

  • Kennarinn getur notað niðurstöðurnar til að bæta og ígrunda eigin kennslu; kennsluaðferðir, matsaðferðir, skráningu og upplýsingagjöf.
  • Fyrir nemandann felur matið í sér sjálfsskoðun. Hann fær leiðir til þess að velta fyrir sér eigin námi, taki þátt í gagnkvæmri endurgjöf með kennara sínum og gera áætlanir um frekara nám út frá eigin forsendum. Markmið með leiðsagnarmati er að efla námsvitund nemenda og þar með ábyrgð þeirra og sjálfstæði.

Leiðsagnarmatið þarf að byggja raunhæfum gögnum um stöðu og framvindu náms. Því þarf matið að vera fjölbreytt og skráning þess stöðug. Nemandi og kennari eru stöðugt virkir. Huga þarf að því hvernig geymsla og miðlun upplýsinga úr mati er háttað. Í Auðarskóla er upplýsingunum miðlað á þrennan hátt:

  • Í Mentor. Upplýsingar úr mati eru skáðar í kerfið og eru þar aðgengilegar foreldrum og nemendum.
  • Með nemendaviðtölum. Í einkaviðtölum kennara með nemendum er farið yfir stöðu og rætt um framvindu og næstu markmið í námi. Fyrst og fremst umsjónarkennarar sem sinna nemendaviðtölum.
  • Með foreldrafundum. Tvisvar á ári fundar umsjónarkennari, nemandi og foreldrar saman um námsframvindu. Umsjónarkennarar sjá um fundina.

Í námsáætlunum frá kennurum kemur fram með hvaða hætti námsmatið fer fram. Annarsvegar í námsskrám fyrir hvert námssvið og svo ýtarlegar í námsáætlunum til nokkra vikna í senn.