Nemendaverndarráð

Við skólann starfar nemendaverndarráð. Í reglugerð 444/2019 um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemenda og nemendaverndarráð í grunnskólum segir að skólastjóri grunnskóla samræmi innan hvers grunnskóla og leikskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, náms- og starfsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs skv. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Jafnframt skal skólastjóri stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eða nemendahópa eftir því sem þurfa þykir.

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.

Í nemendaverndarráði sitja skólastjóri, skólasálfræðingur, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri sérkennslu. Aðrir aðilar eru kallaðir inn eftir þörfum. Ráðið fer yfir og metur umsóknir um stoðþjónustu og kemur erindum í farveg sem leiðir til lausna. Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa. Fundað er að jafnaði á mánaðarfresti þegar skólasálfræðingur kemur til vinnu. Ábyrgðaraðili er skólastjóri.