Mat á skólastarfi

Um mat á skólastarfi grunn- og leikskóla er kveðið á í lögum (lög um grunnskóla nr. 91/2008 og lög um leikskóla nr. 90/2008). Samkvæmt lögunum er matinu ætlað eftirfarandi hlutverk:

A. Veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.
B. Tryggja að starfsemi skólans sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár skóla.
C. Auka gæði náms og stuðla að umbótum.
D. Tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þjónustu samkvæmt lögum.

Mat á skólastarfi í leik- og grunnskóla er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir og kallast innra mat. Hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum sveitarfélags, ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila og er nefnt ytra mat Mat á skólastarfi á að leiða af sér aukin gæði skólastarfs og betri námsárangur. Það snýst fyrst og fremst um að bæta nám og velferð nemenda, námsárangur og námsaðstæður með markvissri skólaþróun og starfsþróun kennara og annarra starfsmanna. Tilgangur matsins er að kanna hvort markmiðum skólans hafi verið náð, greina sterka og veika þætti í skólastarfinu og skapa þannig grunn að umbótum. Það á við nám og námsárangur, eflingu fagmennsku starfsfólks og yfirsýn skólasamfélagsins á gæðum og árangri starfsins.