Leiðarljós í námsmati

Í Auðarskóla er lögð áhersla á að:

  • Mat á hæfni og framförum nemenda sé reglubundinn þáttur í skólastarfi og órjúfanlegur frá námi og kennslu.
  • Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um nám sitt og leiða þá að settum markmiðum.
  • Námsmat sé áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt gagnvart nemendum.
  • Fylgjast með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðla að námshvatningu og meta hverjir þurfa sérstakra aðstoð.
  • Með námsmati séu veittar traustar upplýsingar handa nemendum, foreldrum, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum um námsgengi nemenda, hæfni þeirra, vinnubrögð og framfarir, sem m.a. má hafa að leiðarljósi við frekari skipulagningu náms.

Samkvæmt aðalnámskrá þurfa kennarar að hjálpa nemendum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig miðar í átt að þeim. Til að ná slíku fram skal leggja áherslu á leiðsagnarmat sem byggist á því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skal stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu.