Meginmarkmið með sérkennslu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, bæði andlegum og líkamlegum. Leitast er við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi.
Sérkennsla getur falið í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Hún er skipulögð í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans. Sérkennsla einstakra nemenda eða hópa fer fram innan eða utan almennra bekkjardeilda.
Gerðar eru námsáætlanir fyrir alla nemendur sem eru með greindan námsvanda. Áætlanirnar eru gerðar í upphafi skólaárs. Sérkennarar bera ábyrgð á gerð námsáætlana í samráði við umsjónarkennara. Sérkennari skólans hefur samband við foreldra þeirra nemenda sem njóta sérkennslu. Fer hann yfir markmið og innihald sérkennslunnar. Netfang sérkennara eru bergthora@audarskoli.is og annasg@audarskoli.is.
Einstaklingsnámskrá er námsáætlun fyrir einstakling þar sem markmiðin eru fyrst og fremst sniðin að þörfum hans en taka þó mið af markmiðum árgangsins. Einstaklingsnámskrá getur falið í sér námsáætlun í mörgum námsgreinum fyrir sama einstakling eða einungis áætlun í einni grein. Þegar um mikil frávik frá skólanámskrá er að ræða koma sérkennari, umsjónarkennari og foreldrar að gerð slíkra áætlana í upphafi hvers skólaárs. Sérkennari sér um að útfæra áætlunina og bera hana undir samþykki foreldra. Þá eru haldnir fundir reglulega þar sem farið er yfir gang mála í námi og líðan nemandans og gerðar tillögur að áherslubreytingum.