Áfallaáætlun – Viðbrögð við áföllum

Uppfærð 3. október 2025. Smelltu hér fyrir PDF form af áfallaáætlun.

Áfall

Samkvæmt greiningarskilmerkjum alþjóðlega flokkunarkerfisins í heilbrigðisþjónustu ICD-10 (International Statistical Classification of Diseases and Health Related Problems, 10th revision) telst atburður áfall þegar einstaklingur verður fyrir atburði sem felur í sér raunverulega eða yfirvofandi hættu á dauða, alvarlegum áverkum eða kynferðisofbeldi. Slík útsetning getur falist í því að einstaklingur:

  • lendi sjálfur í atburðinum
  • verði vitni að honum
  • fái vitneskju um að nákominn aðili hafi orðið fyrir honum
  • verði endurtekið útsettur fyrir slíkum atburðum í starfi eða daglegu lífi

 

Ekki eru þó allir erfiðleikar eða streituvaldar í daglegu lífi skilgreindir sem áfall í klínískum skilningi.

 

Hvað er áfallahjálp?

Áfallahjálp er fyrsta aðstoð sem veitt er eftir áföll. Hún miðar að því að endurheimta öryggi, ró og virkni, meta þarfir, tengja við stuðning og veita raunhæfar upplýsingar. Í skólum felur hún einkum í sér:

  • Bráðviðbrögð (Psychological First Aid í skólaumhverfi): Tryggja líkamlegt og sálfélagslegt öryggi, veita róandi nærveru, fræðslu um eðlileg viðbrögð, aðstoða við praktísk mál (samskipti, ferð, umönnun) og virkja náttúruleg stuðningsnet.
  • Eftirfylgd eftir þörfum: markviss samskipti við barn og foreldra/forráðamenn, vöktun einkenna, aðlögun skólaumhverfis (rútína, sveigjanleiki, fyrirmæli, hvíld).
  • Tengingu við sérhæfða þjónustu eftir þörfum: þegar einkenni eru mikil, vara lengi eða trufla virkni er vísað í skólaþjónustu/heilsugæslu og samhæfð úrræði samkvæmt farsældarlögum.

 

Fyrir hverja er áfallahjálp?

Áfallahjálp er ekki ætluð fyrir alla sem verða fyrir erfiðleikum eða daglegum álagssveiflum, heldur fyrir þá sem upplifa áfall í skilningi klínískra skilmerkja (sjá ICD-10). Áfallahjálp nær til nemenda, starfsfólks og fjölskyldna þegar raunveruleg áföll snerta skólann beint eða óbeint, svo sem við slys, skyndilegan missi, ofbeldi eða náttúruhamfarir. Hún er fyrsta stigs úrræði sem allir í skólasamfélaginu eiga rétt á aðgangi að í kjölfar áfalls. Dýpri eða sérhæfð meðferð fer fram utan skólans, hjá viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, eftir mati á þörfum einstaklings.

 

I. Hlutverk áfallaráðs:

  • Sjá um að afla staðfestra upplýsinga um atburð (skólastjóri).
  • Sjá um tilkynningar til allra hlutaðeigandi aðila (skólastjóri í samvinnu við umsjónarkennara, prest og fleiri).
  • Samskipti við fjölmiðla (skólastjóri).
  • Taka ákvörðun um hvaða viðbrögð eru viðhöfð m.t.t. aðstæðna (allt ráðið).
  • Sjá um framkvæmd viðbragða í samráði við þá fjölskyldu sem orðið hefur fyrir áfalli (allt ráðið).
  • Stuðningur og ráðgjöf í formi viðtala við nemendur, foreldra og samstarfsfólk sem veitt eru af sálfræðingi, sérkennara, hjúkrunarfræðingi, presti og öðrum eftir atvikum.
  • Skráir niður viðbrögð og verklag (verkaskipting innan ráðsins).
  • Metur atburðarás og viðbrögð að áfallavinnu lokinni (allt ráðið).
  • Ef skólastjóri forfallast eða áfallið snertir hann beint tekur deildarstjóri grunnskóla eða
    næsti yfirmaður hans við hlutverki skólastjóra í áfallaráðinu. Ef hvorugur þeirra er tiltækur
    getur verið þörf á að fá utanaðkomandi fagaðila til að stýra áfallaráðinu og til að leiða
    fyrstu viðbrögð

 

II. Viðbrögð við langvinnum sjúkdómum:

  • Starfsliði og nemendum sé greint frá því ef einhver úr þeirra hópi þarf að vera langdvölum burt frá skóla eða starfi vegna alvarlegra veikinda.
  • Viðkomandi bekk og starfsliði sé greint frá alvarlegum veikindum í fjölskyldu nemanda.

 

III. Viðbrögð við slysum

  • Starfsliði og nemendum sé greint frá því ef einhver úr þeirra hópi hefur lent í alvarlegu slysi og þarf að vera langdvölum burt frá skóla eða starfi af þeim sökum.
  • Viðkomandi bekk og starfsliði sé greint frá alvarlegu slysi í fjölskyldu nemanda.
  • Verði slys á nemanda á skólatíma á skólinn að hafa samband við forráðamenn þess nemanda sem á í hlut.
  • Verði alvarlegt slys á starfsmanni á skólatíma á skólastjóri að hafa samband við aðstandendur.
  • Skólastjórnendur gæti þess að enginn fari heim úr skólanum með rangar eða misvísandi upplýsingar um neinn þátt málsins. Í því sambandi er mikilvægt að senda bréf með helstu upplýsingum heim með nemendum.
  • Sýni fjölmiðlar áhuga er skólastjóri eini tengiliður skólans við þá. Allir aðrir skulu vísa á hann varðandi allar upplýsingar.

 

IV. Viðbrögð samdægurs við andláti starfsmanns utan skólans

  • Andlátið þarf að vera staðfest og réttar upplýsingar um aðdraganda þess.
  • Áfallaráð kallað saman.
  • Þess er gætt að náin skyldmenni hins látna við nám eða störf innan skólans hafi fengið fréttina áður en öðrum er tilkynnt andlátið.
  • Starfsmönnum skólans skal tilkynnt um andlátið í næstu frímínútum og bestu upplýsingar gefnar um tildrög.
  • Umsjónarkennarar flytja nemendum sínum fregnina í næsta tíma og dreifi til þeirra bréfi skólastjórnenda til forráðamanna. Einnig mun ritari skólans senda afrit af bréfi í tölvupósti til forráðamanna.
  • Sé starfsmaðurinn sérstaklega tengdur einhverjum úr hópi nemenda, t.d. ef um umsjónarkennara er að ræða, þurfa skólastjórnendur og meðlimir áfallaráðs að annast tilkynninguna og vera reiðubúnir að mæta viðbrögðum bekkjarins.
  • Sjá einnig ábendingar í næsta kafla um kertaljós og minningarstund.
  • Flaggað skal í hálfa stöng en reynt að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og unnt er.
  • Skólastjórnendur sendi strax samúðarkveðjur til fjölskyldu hins látna.
  • Borð með blómum, mynd af hinum látna og kerti standi uppi í skólanum fram yfir útför.

 

V. Viðbrögð samdægurs við láti nemanda utan skólans

  • Andlátið skal fengið staðfest og réttar upplýsingar um aðdraganda þess aflaðar.
  • Áfallaráð kallað saman.
  • Þess er gætt að náin skyldmenni hins látna við nám og störf innan skólans hafi fengið fréttina áður en öðrum er tilkynnt andlátið.
  • Starfsmönnum skólans skal tilkynnt um andlátið í næstu frímínútum og réttar upplýsingar gefnar um tildrög.
  • Skólastjóri eða umsjónarkennari tilkynni andlátið strax í næsta tíma viðkomandi bekk og öðrum nemendum skólans. Þeir gæti þess að gefa réttar upplýsingar um tildrög og dreifi bréfi skólastjórnenda til forráðamanna. Einnig mun ritari skólans senda afrit af bréfinu í tölvupósti til forráðamanna.
  • Í kjölfar tilkynningar aðstoðar áfallaráð skólastjórnanda og starfsfólk skólans að skapa aðstæður til minningarstunda, t.d. sé kveikt á kertum en framkvæmd taki mið af aðstæðum svo sem tildrögum andláts, trúfélagi, aldri nemanda o.sv.frv.
  • Flaggað skal í hálfa stöng en reynt að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og unnt er.
  • Skólastjórnendur sendi strax samúðarkveðjur til fjölskyldu hins látna.
  • Borð með blómum, mynd af hinum látna og kerti standi uppi í skólanum fram yfir útför.

 

VI. Viðbrögð samdægurs við andláti í skóla

  • Eigi andlát sér stað á skólatíma þarf að kalla til lögreglu og prest sem sjá um að aðstandendur fái réttar fréttir um málið áður en fjölmiðlar fjalla um það.
  • Sýni fjölmiðlar áhuga er skólastjóri eini tengiliður skólans við þá. Allir aðrir skulu vísa á hann varðandi allar upplýsingar.
  • Að öðru leyti skal fylgt leiðbeiningum í köflum IV og V eftir því sem við á.

 

VII. Viðbrögð samdægurs við andláti aðstandenda nemanda

  • Látist foreldri eða annar náinn aðstandandi nemanda skal starfsliði greint frá því og viðkomandi bekkjardeild tilkynnt það sérstaklega að nemandanum fjarstöddum.
  • Samúðarkveðja og blóm verði send til nemanda frá bekkjarfélögum og starfsliði skólans.
  • Nemandanum skal tryggð aðstoð fagaðila innan skólans eftir því sem þörf krefur.
  • Að öðru leyti skal haft samráð við viðkomandi fjölskyldu um viðbrögð.
  • Meta þarf stuðning við barn við endurkomu í skóla.

 

VIII. Viðbrögð í tengslum við útför starfsmanns

  • Skólastjórnendur skrifi minningagrein frá skólanum og mæti við útförina sem fulltrúar skólans.
  • Sé um umsjónarkennara að ræða fái nemendur aðstoð við að skrifa minningagrein og að senda aðstandendum samúðarkveðju.
  • Nemendur kunna að vilja fylgja umsjónarkennara til grafar. Í slíkum tilvikum er rétt að fá prest til þess að fræða bekkinn um útförina og búa nemendur undir stundina. Einnig er mögulegt að prestur eigi sérstaka helgistund með nemendum við kistu í kirkju.

 

IX. Viðbrögð í tengslum við útför nemanda

  • Skólastjórnendur eða umsjónarkennari skrifi minningargrein með, leyfi forráðamanna, frá skólanum og mæti við útför sem fulltrúar skólans.
  • Varðandi nemendur vísast í kafla VII og VIII um útför, minningagrein og samúðarkveðjur.

 

X. Áfall í skólaleyfi.

  • Ef starfsliði skólans er kunnugt um að áfall er snertir nemendur eða starfsfólk hafi orðið í skólaleyfi getur málsmeðferð í meginatriðum verið eins og að ofan greinir.

 

XI. Áframhaldandi stuðningur eftir áfallið

  • Kennarar, einkum umsjónarkennarar, búi sig undir að nemendur vilji ræða um dauðann, vinna verkefni um dauðann eða á annan hátt að fá útrás eftir áfallið. Í þeirri vinnu er áfallaráð bakhjarl en kemur inn í bekkinn eftir þörfum.
  • Þeir einstaklingar og hópar sem áfallið hefur mest áhrif á skulu að eiga aðgang að stuðningsaðilum innan skólans sem vinna með þeim úr áfallinu og meta í hverju tilviki hvað á best við.
  • Mikilvægast er að starfsmenn skólans séu eðlilegir og hlýlegir en varist alla tilgerð. Tillitsemi og virðing felst m.a. í því að staldra ekki of lengi við áföllin heldur halda áfram lífsgöngunni.

 

XII. Áfall sem tengist starfsmönnum skólans

  • Skólastjóri kannar þörf fyrir stuðning við starfsmannahópinn og bregst við í samvinnu við starfsmenn.

XIII. Skráning viðbragða

  • Öll viðbrögð við áföllum eru skráð og geymd inni hjá skólastjóra í möppu sem heitir Viðbrögð og stefna við áföllum.

 

XIV. Endurskoðun áfallaáætlunar

  • Áfallaáætlun er endurskoðuð í hvert skipti sem hún er virkjuð. Áætlunin byggir á lögum um grunnskóla.

 

XV. Lagalegur og stefnumarkandi grundvöllur áfallaáætlunar

 

  • Áfallaáætlun þessi byggir á lögum um grunnskóla, aðalnámskrá grunnskóla, lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lögfestum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Menntastefnu Dalabyggðar.
  • Í 2. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir að starfshættir grunnskóla skuli stuðla að farsæld, öryggi og velferð nemenda í samstarfi við heimili.
  • Í 1. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna segir að markmið laganna sé að tryggja farsæld barna með samfelldri, skilvirkri og samþættri þjónustu þar sem réttindi og hagsmunir barna séu ávallt í fyrirrúmi.
  • Í 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, lögfestur með lögum nr. 19/2013, segir að í öllum ákvörðunum sem varða börn skuli það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang.
  • Í 16. kafla aðalnámskrár grunnskóla stendur um undanþágur frá aðalnámskrá:

 

Gildar ástæður þurfa að vera fyrir hendi ef barn sækir ekki skóla. Gildar ástæður fyrir tímabundinni undanþágu frá skyldunámi geta m.a. verið:

Alvarleg veikindi, dauðsföll eða önnur áföll í nærumhverfi barnsins.

 

  • Í Menntastefnu Dalabyggðar 2024–2029 segir að í samvinnu við heimilin vinni skólinn að því að búa hverju barni farsæld og sem bestar aðstæður svo öll börn hafi tækifæri til að nýta kosti sína og styrkleika á hvetjandi og uppbyggilegan hátt.

 

Uppfærð 3. október 2025