Viðmið vegna lágmarksmönnunar í leikskóla

 Viðmið vegna lágmarksmönnunar í leikskóla Auðarskóla-Júní 2025-Pdf

Markmið með viðmiðunum er að tryggja öryggi og námsaðstæður barna og starfsumhverfi starfsfólks.

Um neyðarráðstöfun er að ræða. Ef upp koma aðstæður í leikskóla að fjarvera starfsfólks er það mikil að stjórnendur telja öryggi barna ekki tryggt og ábyrgð starfsfólks of mikil þarf að grípa til eftirfarandi aðgerða.

Undirmönnun telst þegar barnafjöldi á leikskólakennara á hvern starfsmann fer yfir 8 barngildi. Hversu alvarleg undirmönnunin er ræðst m.a. af hversu mikil hún er og hversu langan tíma er unnið á lágmarksfjölda starfsfólks. Fari undirmönnun yfir 8 barngildi eða sé viðvarandi í 8 barngildum í tvo daga í röð þarf að grípa til aðgerða.

Allt starfsfólk leikskólans vinnur saman og aðstoða við það sem þarf og allir ganga í þau störf sem mikilvægast er að manna.

Stjórnendur reyna ávallt allar leiðir til að halda starfsemi leikskólans gangandi með aðgerðum sem listaðar eru í viðmiðum.

Ástæður undirmönnunar

Á ákveðnum tímum geta fjarvistir starfsfólks orðið verulegar og geta ástæður fjarverunnar verið til dæmis vegna:

    • Veikindi starfsfólks.
    • Veikinda fjölskyldumeðlima.
    • Vegna lokunar leik- og grunnskóla vegna faraldurs.
    • Vegna veðurs og ófærðar
    • Önnur tilfallandi forföll starfsfólks.

Aðgerðaráætlun

Áður en börn eru send heim og í þessari röð:

  1. Börn og starfsfólk færð á milli deilda til að jafna barngildi og tryggja þannig öryggi barna og að hvergi sé undirmannað.
  2. Leikskólakennarar/starfsfólk/stjórnandi sem eiga lögbundinn rétt á undirbúningstíma þurfa að skerða eða fresta sínum undirbúningstíma.
  3. Stuðningsúrræði og sérkennslu er frestað.
  4. Mannfrekari starfssemi eins og þemavinna, listgreinakennsla, vettvangsferðir o.fl. er frestað.
  5. Frjáls leikur og/eða útivist eru aukin.
  6. Síðasta aðgerð í viðmiðum er að senda börn heim.

Viðmið þegar börn eru send heim

Senda verður ákveðinn fjölda barna heim úr leikskólanum og miðast fjöldinn við þau barngildi sem Dalabyggð ákvarðar á hvern starfsmann. Hver starfsmaður ber ábyrgð á ákveðnum fjölda barna. Fjöldi barna sem sendur er heim ræðst af fjölda starfsfólks sem eru fjarverandi og aldri barna að undangengnu mati á fjarveru starfsfólks í leikskólanum og samstarfi á milli deilda.

Viðmið um fjölda barna á hvern starfsmann eru:

    • 1 árs – 4 börn
    • 2 ára – 5 börn
    • 3 ára – 6 börn
    • 4 ára – 8 börn
    • 5 ára – 10 börn
    • Dreifa skal skerðingunni eins og kostur er þannig að tryggt sé að öll börn verði fyrir skerðingu einu sinni áður en skerðing kemur til framkvæmda öðru sinni.
    • Komi til skerðingar skulu systkini vera heima á sama tíma.
    • Til að koma í veg fyrir frekari skerðingu á þjónustu Auðarskóla, skulu börn starfsfólks alla jafna ekki send heim.
    • Skerðing getur verið fólgin í því að börn séu heima, ýmist hluta úr degi (sótt fyrr eða koma seinna) eða allan daginn.
    • Foreldrar greiða ekki dvalar- og fæðisgjald fyrir þann tíma sem þjónusta fellur niður.

Samskipti við foreldra

Reynt skal að tilkynna foreldrum um skerðingu með eins löngum fyrirvara og kostur er. Þá skal reynt að gefa foreldrum aðvörun ef líkur eru á neyðarástandi, en leikskólinn áskilur sér þann rétt að grípa til fyrirvaralausrar skerðingar vegna óviðráðanlegarar undirmönnunar.

Hringt er í þá foreldra sem þurfa að sækja börn sín. Aðstoðarleikskólastjóri og/eða staðgenglar sjá um að hafa samband.

Samskipti við stjórnsýslu Dalabyggðar

Skólastjóri/aðstoðarleikskólastjóri tilkynnir skrifstofu Dalabyggðar um aðgerðir samkvæmt viðmiðum þessum.

Uppfært júní 2025