Heimanám

Markmið með heimanámi

Í Aðalnámskrá grunnskóla kemur skýrt fram að foreldrar og forráðamenn beri frumábyrgð á uppeldi barna sinna en jafnframt stendur þar að þeir þrír hópar sem mynda skólasamfélagið (nemendur, starfsfólk skólans og foreldrar) vinni vel saman. Einn þáttur þessarar samvinnu er heimanám. Heimanám er einn þáttur í daglegu lífi skólabarna þar sem foreldrar/forráðamenn fá tækifæri til að fylgjast með námi barna sinna (samskiptatæki) og styðja við bakið á þeim (stuðningur, skipulag, hvatning, námstækni, ábyrgð). Þar sem vel hefur tekist til með heimanám hafa rannsóknir sýnt að það getur haft jákvæð áhrif á persónuþroska og námsárangur og því er mikilvægt að góð samvinna ríki á milli heimilis og skóla.

Markmið með heimanámi er:

  • að nemendur þjálfi og rifji upp það sem kennt hefur verið í skólanum,
  • að nemendur verði sjálfstæðir í vinnubrögðum,
  • að nemendur öðlist aukna færni í að undirbúa sig fyrir skólann,
  • að veita foreldrum/forráðamönnum tækifæri til að taka þátt og fylgjast með námi barna sinna.

Námsáætlanir og heimalestur

Námsáætlanir eru settar inn á Mentor. Á vikuáætlunum kemur fram áætluð heimavinna nemenda, ýmsar upplýsingar og tilkynningar. Foreldrar geta séð námsáætlanir á Mentor.
Til að nemendur nái góðum árangri í lestri er mjög mikilvægt að lesa upphátt heima alla virka daga (raddlestur). Við upphaf lestrarnáms er góð regla að lesa hverja blaðsíðu að minnsta kosti tvisvar sinnum.
Slík þjálfun gefur barninu aukna færni í lestri orðmynda, auk þess sem lesturinn verður oftast þjálli þegar sami texti er lesinn öðru sinni. Lesið er í áheyrn fullorðins og kvittað er fyrir áheyrn í þar til gerð kvittanahefti. Áhersla er lögð á að nemendur fái efni við hæfi svo að lesturinn verði sem ánægjulegastur.

Að lesa fyrir börn er góður grunnur fyrir allt nám

  • Lestur er grunnstoð í öllu námi. Í Auðarskóla er ætlast til þess að foreldrar styðji vel við lestrarnám sinna barna og aðstoði þau við heimalestur.

Foreldrar eru hvattir til að lesa áfram upphátt fyrir börn sín, jafnvel þó þau séu sjálf farin að lesa. Flest börn ráða einungis við mjög léttan texta í byrjun, en hafa þörf fyrir að vinna með flóknari texta sem fellur betur að þroska þeirra og áhuga. Lestur foreldra og umfjöllun um textann, eykur orðaforða barnanna og bætir málþroska, en góður málþroski er einmitt einn af grunnþáttum alls náms.

  • Lestur foreldra og umfjöllun um textann, eykur orðaforða barnanna og bætir málþroska, en góður málþroski er einmitt einn af grunnþáttum alls náms líkt og lesa má um í læsisstefnu Auðarskóla.