Skógrækt Auðarskóla

Skógræktarstarf

Auðarskóli hefur til umráða svæði austan við Búðardal, ofan við Rarikhúsið, til þess að gróðursetja trjáplöntur.

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins er sjóður sem úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju.“ Verkefninu er á þennan hátt ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar.

Árlega frá árinu 2002 hafa nemendur skólans gróðursett birkiplöntur og eru nú komnar um 4000 plöntur í skólaskóginn. Í upphafi fékk skólinn um 400 plöntur á ári og tóku þá allir nemendur skólans þátt í gróðursetningunni. Seinni árin hefur Auðarskóli fengið 268 plöntur á ári og hafa nemendur á miðstigi annast gróðursetninguna. Yrkjusjóðurinn úthlutar einungis birkiplöntum en því til viðbótar hefur aðeins verið gróðursett af furu, lerki, greni, reynivið og ösp. Einnig hafa verið gróðursettar 8 plöntur af berjarunnum, rifsber, sólber og stikkilsber og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þeim muni vegna í skóginum.

Nemendur hafa fengið fræðslu í skóginum samhliða gróðursetningu. Fræðslan snýst m.a. um að velja gróðursetningarstað, mikilvægi áburðargjafar og að gróðursetningaraðferð skipti miklu máli fyrir lifun og vöxt trjáplantna. Nemendur hafa einnig fengið lengri fræðslu í skólastofunni um algengustu trjátegundir í skógrækt á Íslandi, berjarunna og mikilvægi skógæktar fyrir land og þjóð.

Íslenska birkið vex hægt svo það tekur oft langan tíma að rækta birkiskóg, skógrækt getur því verðið mikið þolinmæðisverk. Þrátt fyrir nokkuð vindasamt svæði og ekki mjög frjósaman jarðveg er árangurinn orðið nokkuð sýnilegur. Plönturnar teygja sig hægt og rólega til himins þó ekki sé hægt að fela sig í skóginum ennþá.

Næstu verkefni í skóginum eru að halda áfram að planta og bera á fyrri gróðursetningar. Þegar trén stækka og verða of þétt þá grisjum við og nýtum efniviðinn í smíðastofunni. Það er orðið brýnt að bæta aðgengi að skólaskóginum, nú þarf að fara yfir stórþýfi og kafgras til að komast þangað. Það er von okkar að úr því verði bætt sem fyrst svo ferðir nemenda og íbúa Dalabyggðar aukist í skóginn. Gott aðgengi stuðlar að betri umhirðu skógarins og að sem flestir njóti að dvelja sem oftast í skóginum.

Umsjón með skógræktarstarfinu hefur Bergþóra Jónsdóttir.