1. grein
Tónlistardeild Auðarskóla er sérstök deild innan Auðarskóla og lýtur stjórn skólastjóra. Skólastjóri fer með daglega stjórnun deildarinnar og ber ábyrgð á henni. Skólastjóri skal framfylgja samþykktum fræðslu- og menningarnefndar. Hann hefur umsjón með húsnæði og eignum skólans. Skólastjóri skal ráða starfsfólk deildarinnar, ganga frá vinnuskýrslum starfsmanna til launafulltrúa, árita reikninga vegna rekstrar og innkaupa. Skólastjóri kemur fram fyrir hönd deildarinnar gagnvart starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra svo og aðilum utan skólans. Næsti yfirmaður skólastjóra er sveitarstjóri.
2. grein
Kennsla í tónlistardeildinni fer eftir Aðalnámskrá fyrir tónlistarskóla hverju sinni.
Markmið tónlistardeildarinnar er að:
•
• Stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á tónlist og njóta hennar.
• Búa nemendur undir að geta iðkað tónlist upp á eigin spýtur.
• Stuðla að auknu tónlistarlífi í skólanum og samfélaginu öllu.
• Að veita 6 – 9 ára gömlum börnum tónmenntarnám og fornám í hljóðfæraleik.
• Að samþætta tónlistarstarfssemi tónlistardeildar, leikskóla og grunnskóla.
• Nota og þróa samþætt kennsluefni í tónlistarforskóla, tónmenntakennslu og hljóðfæranámi.
3. grein
Starfstími deildarinnar er 35 vikur og skal tengjast eins og kostur er starfstíma og skóladagatali grunnskóladeildar. Námsárið í tónlistardeildinni skiptist niður í tvær annir; haustönn og vorönn með skil um áramót. Deildinni er ætlað að sinna nemendum Auðarskóla.
4. grein
Starfssemi tónlistardeildarinnar takmarkast við tvö stöðugildi tónlistarkennara. Leitast er eftir að við deildina starfi menntaðir tónlistarkennarar. Framboð á tónlistarnámi helst í hendur við kunnáttu og getu starfsmanna hverju sinni.
5. grein
Innritun í tónlistardeildina fer fram í ágúst ár hvert og þurfa nemendur að vera fullgildir nemendur í Auðarskóla. Foreldrar geta valið um að hafa nemendur í heilu námi, hálfu námi og hópatímum. Við innritun gilda eftirfarandi innritunarreglur og forgangsröðun:
1.
1. Því lengra tónlistarnám að baki því meiri forgangur.
2. Nemendur í 5. – 10. bekk ganga fyrir.
3. Nemendur í heilu námi ganga fyrir nemendum í hálfu námi.
4. Nemendur sem ítrekað hafa hætt námi á miðri námsönn mæta afgangi við innritun.
6. grein
Kennsla í tónmennt fyrir 1. – 4. bekk samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla og fornám í hljóðfæraleik/forskóli fer fram í grunnskólanum undir umsjón tónlistarkennara úr tónlistardeild Auðarskóla.
7. grein
Allir nemendur í einstaklingstímum frá 5. bekk sækja einnig hópatíma í tónfræði. Nemendum er ætlað að taka þátt í tónfundum, hljómleikum og samspili með öðrum tónlistarnemendum.
8. grein
Tvisvar á ári er frammistaða nemenda metin. Annarsvegar í skólaprófum í desember og hinsvegar í lokamati í maí. Tvisvar á ári eru foreldrar boðaðir í viðtal hjá tónlistarkennara og skulu foreldradagar grunnskólans notaðir til viðtalanna.
9. grein
Deildin innheimtir námsgjöld fyrir heilt nám, hálft nám og nám sem fram fer í hópi. Gjöldin fara eftir gjaldskrá sveitarfélagsins hverju sinni. Nemendur/forráðamenn bera kostnað af bókakaupum er varða hljóðfæranám og/eða tónfræðinám. Hætti nemandi í námi á miðri önn, skal innheimta fyrir hvern hafinn mánuð í námi. Bækur fengnar í upphafi annar greiðist að fullu. Falli tónlistarnám niður í lengri tíma en 10 daga samfellt vegna veikinda nemanda dregst það tímabil frá innheimtu gjalda.
10. grein
Nemendur geta leigt hljóðfæri af tónlistardeildinni. Skal þá gerður samningur þar um og fer leiga eftir gjaldskrá sveitarfélagsins hverju sinni.