Fokk me-Fokk you
Fræðslan Fokk me-Fokk you fræðsla fer fram í Auðarskóla þriðjudaginn 14. mars. Það eru þau Kári Sigurðsson og Andrea Marel sem sjá um hana og þar verður fjallað um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna. Hún er ætluð unglingum og ungmennum 5. til 10. bekkja, foreldrum þeirra og aðstandendum og starfsfólki sem starfa með börnum og unglingum. Nemendur í 5.-7. bekk fá fræðslu fyrir hádegið og nemendur á elsta stigi eftir hádegi. Kl. 17 verður haldin fræðsla fyrir foreldra/forráðamenn og aðra áhugasama í efra holi grunnskólans og verður boðið upp á veitingar!
Í fræðslunni verður fjallað um sjálfmyndina og eru nemendur vaktir til umhugsunar um hvað það er sem hefur áhrif á okkur frá degi til dags. Rætt verður um hve mikilvægt er að sýna hvert öðru virðingu og virða mörk annarra. Farið verður yfir hvernig áhrif fjölmiðlar og samskiptamiðlar geta haft á okkur og tekin verða dæmi úr raunveruleika unglinga. Rætt verður um notkun samfélagsmiðla eins og instagram, tiktok og snapchat svo dæmi séu tekin og rætt um tækifæri og áskoranir sem tengjast samskiptum á slíkum miðlum. Sérstaklega verður rætt um kynferðislega áreitni og stafrænt kynferðisofbeldi. Í gegnum fræðsluna verða sýndar myndir og skjáskot sem unglingar hafa sent hvert öðru, ræddar reynslusögur ungs fólk og reynslu fyrirlesara úr starfi með unglingum. Fræðslan hefur farið fram í fjölmörgum félagsmiðstöðvum og grunnskólum um land allt fyrir nemendur í 5.-10.bekk, í menntaskólahópum, foreldrahópum, vinnuskólahópum og starfsfólki sem vinnur með unglingum.
Við fögnum fræðslunni og komu þeirra Kára og Andreu. Fræðsludagurinn er unninn í samvinnu foreldrafélags og skólans og nú ætti enginn að láta þetta framhjá sér fara þar sem þessi málefni brenna á okkur alla daga og hafa áhrif á daglegt líf! Það er mikilvægt að láta okkur þessi málefni varða og eru allir hvattir til þess að mæta á þessa fræðslu sem tekur um 1 klukkstund.