Á fimmtudaginn 9. nóvember s.l. fóru nemendur á elsta stigi Auðarskóla í ferð á Akranes til að taka þátt í Tæknimessu sem haldin var í fjölbrautaskólanum þar. Það var líf og fjör í fjölbrautaskólanum þann daginn en þetta var í annað skiptið sem Tæknimessan var haldin í skólanum.
Um 650 ungmenni af elsta stigi grunnskólanna á Vesturlandi tóku þátt.
Markmið með Tæknimessu er að kynna það námsframboð sem í boði er í Fjölbrautaskóla Vesturlands á sviði iðn- og verkgreina og hvaða tækifæri eru til atvinnu hjá iðn- og tæknifyrirtækjum í landshlutanum. Fjölmörg fyrirtæki komu og kynntu starfsemi sína og hvers konar störf þau geta boðið.
Okkar nemendur skoðuðu og kynntust hinum ýmsu iðngreinum ásamt því að fara í ratleik. Eftir hádegismat í fjölbrautaskólanum var svo ferðinni heitið í stutta bátsferð og kynningu á véltækninámi um borð í ferjunni Akranesi.
Í lokin var svo stefnan að fara í kynnisferð í hátæknifyrirtækið „Skaginn 3x“ en vegna seinkunnar verður það að bíða betri tíma.
Nemendur skemmtu sér konunglega í þessari flottu ferð og fræddust um margt áhugavert.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi styðja verkefnið í gegnum Sóknaráætlun.
Til að fræðast nánar um tæknimessuna má skoða upplýsingar um viðburðinn á facebook síðu FVA:
FVA – Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi