Forseti Íslands í Auðarskóla

admin

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og kona hans, Eliza Reid, ásamt fylgdarliði, komu í opinbera heimsókn í Dalina 6. og 7. desember 2017.

Þau byrjuðu heimsóknina á hjúkrunarheimilinu Fellsenda um þrjúleitið miðvikudaginn 6. desember.  Þaðan fóru þau svo að Erpsstöðum þar sem þau fræddust um starfsemina þar og því næst kynntu þau sér ostagerðina í MS í Búðardal.  Að þessu loknu var o

pinn fundur í Leifsbúð um framtíð ferðaþjónustu í Dölum. Kynnt voru áform um uppbyggingu í Ólafsdal, Vínlandssetur og söguhringurinn um Fellsströnd og Skarðsströnd.  Í lok kynninganna var gestum boðið upp á kaffiveitingar.  Forsetahjónin enduðu svo fyrri dag heimsóknar sinnar á Byggðasafni Dalamanna á Laugum þar sem Valdís Einarsdóttir safnvörður tók á móti þeim.

Fimmtudaginn 7. desember byrjuðu forsetahjónin á ferð fyrir strandir eins og við heimamenn köllum það en það er hringurinn sem er farið að tala um sem „Gullna söguhringinn“, hringurinn fyrir Fellsströnd, Skarðströnd og um Svínadalinn.


Um 11:40 mættu þau svo í Auðarskóla.  Þau byrjuðu á leikskólanum þar sem þau heilsuðu leikskólabörnum.  Fyrst



fór hann og kíkti á litlu krílin á Dvergahlíð þar sem þau störðu á hann stórum augum.  Svo kíkti



hann inn í söngstund með eldri börnum á Tröllakletti og hlustaði á nokkur lög sem börnin sungu fyrir hann og tók svo lagið með þeim.

Klukkan 12:00 fóru svo nokkrir fulltrúar nemendaráðsins og sóttu forsetann og fylgdarlið út á leikskóla og fylgdu þeim yfir í grunnskólann.  Þar tóku við þeim aðrir fulltrúar nemendaráðs sem fylgdu þeim inn í kennararýmið þar sem hann heilsaði nokkrum starfsmönnum.  Því næst var þeim fylgt inn í stofur þar sem nemendur skólans biðu spenntir eftir að hitta forsetann og heilsuðu þau hjónin flestum með handabandi.  Byrjað var í neðri byggingu skólans þar sem hann fór inn í þrjár stofur yngsta stigs og eina stofu miðstigs.  Þegar komið var upp ganginn inn í efri byggingu skólans voru enn aðrir fulltrúar nemendaráðs sem tóku á móti honum og fylgdu þeim inn í aðra stofu miðstigs og svo voru allir unglingarnir saman í einni stofu.  Nemendur elsta stigs sýndu líka stóru stundatöfluna í salnum og útskýrðu fyrir þeim hvernig stundataflan þeirra virkar, hvernig hún hefur fasta tíma og svo síbreytilega tíma með síbreytilegum hópum.

Heimsókn forsetans í Auðarskóla lauk svo með því að honum og fylgdarliði hans ásamt nemendum og starfsfólki var boðið í íslenska kjötsúpu í Dalabúð.  Nemendur voru ánægðir með heimsókn forsetans og brosið skein úr andlitum þeirra meðan á heimsókninni stóð.

Eftir heimsóknina í Auðarskóla fóru forsetinn og fylgdarlið að Eiríksstöðum og kynntu sér ferðir Dalamannsins Leifs heppna og því næst fóru þau að Kvennabrekku þar sem Guðni sjálfur afhjúpaði skilti um Árna Magnússon fræðimann og handritasafnara.  Þá fóru þau að Kringlu að skoða sauðfjárbúið hjá ungu bændunum þar.  Síðasta heimsóknin í þessari ferð var svo til eldriborgara á Silfurtúni.

Í lok dags var svo fjölskylduskemmtun í Dalabúð þar sem öllum íbúum gafst kostur á að hitta forsetahjónin ásamt því að sjá skemmtiatriði sem hinir ýmsu heimamenn, þar á meðal nemendur Auðarskóla, skemmtu gestum.  Að lokum tóku allir lagið „Hátíðarskap“ og gæddu sér svo á hinum ýmsu afurðum úr Dölum.