Stóra upplestrarkeppnin í Búðardal

admin

Föstudaginn 29. mars 2019 var stóra upplestrarkeppnin haldin í Búðardal. Til stóð að keppnin ætti að fara fram fimmtudaginn 28. mars en þar sem veðurhorfur voru slæmar og vetrarfærð þá var ákveðið að fresta henni um sólarhring. Föstudagurinn rann um með góðu veðri sól og vetrarblíðu. Keppendur frá Heiðarskóla, Grunnskólanum í Borgarnesi og Grunnskóla Borgarfjarðar komu hingað í Búðardal ásamt nokkrum gestum. Því miður komu nemendur ekki frá Laugargerðisskóla vegna árshátíðarundirbúnings þar.

Dómarar voru þrír og komu tveir þeirra frá Reykjavík, Jón Hjartarson yfirdómari og Þórður Helgason, eins var einn dómari frá okkur, Valdís Einarsdóttir. Nemendur í tónlistardeild Auðarskóla, Kristófer Daði, Jasmín Hall og Soffía Meldal, voru með tónlistaratriði fyrir keppnina og eins í hléi og stóðu þau sig mjög vel.

Auðarskóli bauð upp á kaffiveitingar á meðan dómarar réðu ráðum sínum. Keppnin var jöfn og spennandi en svo fór að lokum að tvö efstu sætin fóru til Grunnskólans í Borgarnesi og þriðja sætið til Auðarskóla. Hinrik Úlfarsson Grunnskólanum í Borgarnesi varð hlutskarpastur, í öðru sæti var síðan Jóhannes Þór Hjörleifsson Grunnskólanum í Borgarnesi og í þriðja sæti varð Jóhanna Vigdís Pálmadóttir (Jódí) úr Auðarskóla.

Að lokum þakka ég öllum þeim sem komu að þessari keppni kærlega fyrir þeirra framtak.


Þorkell Cýrusson aðstoðarskólastjóri Auðarskóla