1.kafli – Almenn atriði

Auðarskóli hefur verið starfræktur frá 1. ágúst 2009, en þá voru allar skólastofnanir í sveitarfélaginu Dalabyggð sameinaðar. Undir Auðarskóla falla eftirtaldar þrjár deildir: Leikskóli, tónlistarskóli og grunnskóli. Skólinn er samrekinn skóli og er staðsettur í Búðardal sem er eini þéttbýliskjarni sveitarfélagsins. Starfsemi skólans byggist á lögum um leik- og grunnskóla sem tóku gildi 1. júlí 2008, en þar er kveðið á um heimild sveitarfélaga til að reka saman leik-, grunn- og/eða tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra.

Deildirnar starfa í þremur aðskildum húsum sem allar standa við Miðbraut í Búðardal. Húsnæði leikskólans var byggt 2009 og þar fer öll starfsemi leikskóladeildar fram. Nemendur grunnskólans eru í húsnæði fyrrum grunnskóla Búðardals sem byggt var á árunum 1975 til 1983. Tónlistarskólinn eru staðsettur í Félagsheimilinu Dalabúð sem er staðsett mitt á milli grunn- og leikskólans. Félagsmiðstöðin Gildran er starfrækt í húsnæði grunnskólans og mötuneyti skólans er í Dalabúð.

Skólinn ber heitið Auðarskóli og komst það á í kjölfar nafnasamkeppni sumarið 2009. Skólinn er nefndur í höfuðið á landnámskonunni Auði djúpúðgu, sem var kristin, einstæð móðir og nam stóran hluta Dalasýslu.

Grunnskóli Auðarskóla er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur sem búa í Dalabyggð. Sveitarfélagið Dalabyggð nær frá botni Álftafjarðar að Gilsfjarðarbotni og eru aðliggjandi sveitarfélög Stykkishólmur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Borgarbyggð, Húnaþing vestra, Strandabyggð og Reykhólahreppur.

Skólinn vinnur í anda hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og lögð er áhersla á að koma á móts við námsþarfir allra nemenda í skólanum. Árgöngum er kennt í samkennslu og eru námshópar fámennir. Í grunnskóla Auðarskóla stunda um það bil 70 nemendur nám og starfsmenn eru um 24. Skólinn opnar klukkan 8:00 á morgnana. Boðið er upp á morgunmat og hádegismat í mötuneyti fyrir nemendur og starfsmenn hafa kost á að snæða hádegismat þar. Að kennslu lokinni gefst nemendum á yngsta stigi,1. – 4. bekk, kostur á frístundar viðveru í Kátadal.