Úrslit jólamyndasamkeppni Auðarskóla

AuðarskóliFréttir

Hinni árlegu jólamyndasamkeppni Auðarskóla er lokið. Nemendur hafa fengið tækifæri á skólatíma til að teikna sína jólamynd. Myndirnar eru svo hengdar upp á vegg fyrir dómnefnd að meta. Myndirnar eru nafnlausar.
Þegar myndin er valin er farið eftir ýmsu. Myndefnið er skoðað: tilfinning og stemning og boðskapur. Skoðað er hvort myndin segi sögu. Þá er einnig metið hvernig nemandi vinnur myndina, hvort hann vandar vinnu og frágang.
Það eru þrír í dómnefnd og hver dómari velur þá mynd sem honum líst best á, án þess að nefna það strax. Þegar allir hafa hugsað sér mynd, þá segja þeir hinum frá.
Sú mynd vinnur sem flestir velja, þ.e. tveir dómarar, nú eða þrír.
Ef enginn var sammála eru valdar þrjár myndir og svo valið aftur úr þeim þremur, en þess þurfti ekki í ár.
Í dómnefndinni í ár sátu Fríða, Hallrún og Maja.
Úrslitin voru svona:
Á yngsta stigi: Þórður 2.bekk.
Mat dómnefndar var að hann náði að fanga það augnablik þegar jólasveinninn fer út í myrkrið, tilbúinn með pokann sinn á leiðinni á sleðann. Birtan í hellinum greip athygli dómnefndar.
Á miðstigi: Hanna Kristín 5.bekk.
Mat dómnefndar var að hún skapaði hlýlega og notalega stemningu, yl og kærleik, í mynd sinni. Það er nostrað við slaufurnar og fallegt að sjá mýsnar í forgrunni myndarinnar. Sannur jólaandi.
Á elsta stigi: Kristján Þorgils 9.bekk.
Mat dómnefndar var að hann hafði náð að túlka flækjuna vel og svipur hundsins sýnir það.  Nostrað er við smáatriði og skyggingar, einsog sjá má í seríunni og í vinnu á gólfinu. Jólaleg stemning er bæði inni og úti.
Athugasemd frá Guðmundi Kára: „Því miður er ég ekki með ljósmyndir af myndunum sjálfum en bæti þeim við þegar ég mæti aftur til vinnu eftir áramót.“