Foreldrafræðsla um lestrarkennslu

AuðarskóliFréttir

Elsku foreldrar og forráðamenn barna í Auðarskóla öllum,

 

Á skólaráðsfundi 14. nóvember síðastliðinn var rætt mikilvægi þess að efla samstarf skóla og heimilis þegar kemur að lestrarkennslu og tryggja að bæði starfsfólk og foreldrar hafi sameiginlega þekkingu á áhrifaríkum leiðum til að styðja við lestrarnám barna. Rannsóknir á heimalestri hafa sýnt að markviss inngrip sem fela í sér fræðslu og leiðsögn til foreldra hafa marktæk áhrif á framfarir barna í lestri samanborið við að engin slík íhlutun fari fram. Árangurinn er mestur þegar foreldrum/forráðamönnum er veitt hagnýt leiðsögn um hvernig þeir geti hlustað á barnið lesa, stutt það með uppbyggilegum hætti og unnið með einfaldar lestraræfingar í daglegu lífi.

 

Jafnframt er mikilvægt að viðurkenna að margir foreldrar/forráðamenn finna til óöryggis í tengslum við heimalestur. Það er algeng og fullkomlega skiljanleg upplifun í ljósi þess að foreldrar/forráðamenn fá takmarkaða kennslu í þeim þáttum sem liggja að baki lestrarfærni. Það er því fremur ósanngjörn krafa á foreldra/forráðamenn að sinna þessu hlutverki án þess að þeim standi til boða viðeigandi fræðsla og leiðsögn.

 

Til að mæta þessum vanda og styðja foreldra/forráðamenn í þessu mikilvæga hlutverki hefur Foreldrafélag Auðarskóla skipulagt lestrarkennslufræðslu sérstaklega miðaða að foreldrum/forráðamönnum:

 

Mánudaginn 26. janúar kl. 17:00-19:00 býður Foreldrafélag skólans foreldrum og forráðamönnum barna í leik- og grunnskóla velkomin á lestrarfræðslu. Hana veitir Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir læsisfræðingur, atferlisfræðingur og kennari sem starfar sem kennsluráðgjafi hjá Kópavogsbæ.

 

Á fræðslunni verður fjallað um hvernig foreldrar/forráðamenn geta:

  • stutt við lestur barna sinna heima,
  • skipulagt heimalestrarþjálfun,
  • aukið hvata barna til lesturs.

 

Fræðslan verður sniðin að foreldrum/forráðamönnum barna á öllum aldri með leiðbeiningum sem auðvelt er að nýta í daglegu lífi fjölskyldunnar.

 

Það er mín einlæga ósk að þið nýtið ykkur þessa heimsókn frá þessum fjölhæfa fagaðila. Skrifið þetta niður í dagatalið ykkar. Við hlökkum til að fá hana Sigurlaugu í heimsókn og ég hlakka til að taka á móti ykkur í skólanum okkar.

 

Guðmundur Kári Þorgrímsson

Starfandi skólastjóri Auðarskóla