Frá tónlistardeildinni

admin





Picture

Frá því að Auðarskóli tók til starfa haustið 2009 hefur nám í tónlistardeildinni verið að þróast. Nokkrar breytingar hafa verið á samsettningu námsins og kennslu.

Sem dæmi um slíkt má nefna að í dag er nám í tónfræði eitthvað sem allir nemendur stunda nú, en tónfærði var nánast ekki kennd árið 2009.  Nemendur  deildarinnar koma nú fram fyrir aðra helmingi oftar en áður í samspili eða einleik.

Breyting er einnig á því hvaða hljóðfæri nemendur velja sér.  Nú er algengast að læra söng, á píanó og á gítar.  Árið 2009 var harmonika eitt algengasta hljóðfærið en þetta haust er enginn nemandi að læra á það hljóðfæri og er það miður.

Breyting hefur einnig orðið á vali um heilt eða hálft nám.  Árið 2009 voru örfáir nemendur í heilu námi; næstum allir völdu hálft nám.  Nú velja næstum jafnmargir heilt og hálft nám.

Vorið 2012 tók nemandi við deildina grunnpróf í hljóðfæraleik og var það fyrsti nemandinn til að gera það um langt árabil. Þetta skólárið stefna enn fleiri á grunnpróf og er það vel.

Deild eins og tónlistardeild Auðarskóla þarf að hafa innanborðs metnaðarfulla nemendur sem sækjast eftir framvindu og framförum í námi sínu.  Ofangreindar breytingar bera flestar vott um slíkt.