Kaffihúsakvöld 19. nóvember kl. 17:00

AuðarskóliFréttir

Kaffihúsakvöld er rótgróinn liður í starfi Auðarskóla og byggir framkvæmd þess á starfsáætlun skólans. Viðburðurinn er haldinn ár hvert í Dalabúð og stendur yfir í um tvær klukkustundir, frá kl. 17:00 til 19:00. Í ár er viðburðurinn haldinn miðvikudaginn 19. nóvember. Húsið opnar kl. 16:30.

 

Skóladegi lýkur strax eftir hádegismat kl. 12:50. Þá leggja skólabílar af stað heim með nemendur í grunnskóla og leikskólabörn. Ég minni foreldra á að láta skólabílstjóra vita ef þau ætla ekki að nýta skólaaksturinn þennan daginn. Nemendur á elsta stigi mæta svo aftur kl. 16:00 til að leggja lokahönd á undirbúning. Aðrir geta mætt frá kl. 16:30 en eigi síðar en kl. 17:00. Það er mikilvægt að fullorðinn aðili fylgi nemendum í 1-7. bekk á viðburðinn.

 

Verð og greiðslumöguleikar:

  • Aðgangur kostar 1.500.- fyrir almenning.
  • Aðgangur kostar 1.000.- fyrir 65 ára og eldri.
  • Aðgangur er ókeypis fyrir nemendur Auðarskóla.
  • Happdrættismiði kostar 500.-

 

Það verða tveir posar á staðnum. Við hvetjum gesti til að mæta með reiðufé ef kostur er þar sem það getur hraðað afgreiðslu.

 

Nemendur í eldri bekkjum Auðarskóla sjá um skipulagningu, dagskrá, skemmtiatriði, miðasölu, þjónustu, auglýsingar, söfnun happdrættisvinninga og önnur verkefni sem tengjast viðburðinum undir verkstjórn kennara. Gestir fá veitingar á viðburðinum (kakó og kökur) og sjá nemendur elstu bekkja sjálfir um að þjóna til borðs. Seinni hluti kvöldsins er tileinkaður happdrætti þar sem nemendur hafa safnað vinningum frá ýmsum aðilum. Starfsfólk Auðarskóla sinnir eftirliti, leiðsögn og stuðningi við nemendur á deginum, bæði í undirbúningi og á viðburðinum sjálfum.

 

Viðburðurinn er jafnan vel sóttur og hefur meðal annars þann tilgang að skapa vettvang fyrir sköpun, félagslega þátttöku nemenda og styrkja ferðasjóð. Auk þess er þetta tækifæri fyrir foreldra/forráaðamenn, aðra fjölskyldumeðlimi og aðra þegna samfélagsins okkar að skyggnast inn í skólastarfið okkar og kynnast okkar frábæru nemendum enn betur.

 

Nemendur okkar hafa unnið að undirbúningi síðustu vikurnar og það er virkilega gaman að fylgjast með því hvernig þau koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

 

Ég hlakka mikið til að sjá ykkur flest, heilsa ykkur, spjalla og hlæja.

 

Með kærri kveðju,

Guðmundur Kári Þorgrímsson

Starfandi skólastjóri Auðarskóla