Nemendaþing fór fram þann 5. og 6. maí, tvær kennslustundir hvorn daginn.
Öllum nemendum 6.-10. bekk var skipt upp í 6 hópa, einn starfsmaður með hverjum hópi og hafði hver hópur ákveðið umræðuefni.
Til umræðu að þessu sinni voru skólareglurnar, en þær eru þessa stundina í endurskoðun og því mikilvægt að nemendur geti haft áhrif á reglurnar og hvernig þær eru orðaðar. Nemendur voru almennt mjög áhugasöm og tóku virkan þátt í umræðunum.
Hér má sjá reglurnar eins og þær eru áður en þingið hófs:
Skólareglur Auðarskóla
Til að tryggja gott skólastarf setjum við í Auðarskóla okkur þessar reglur og gilda þær á skólatíma og í öllu starfi á vegum skólans. Skólareglur gilda fyrir öll sem að skólastarfinu koma. Öllum ber að kynna sér skólareglurnar. Vanþekking leysir ekki undan ábyrgð.
- Ástundun
Skólinn er vinnustaður okkar nemenda og starfsfólks. Við vinnum öll okkar störf og verkefni sem okkur eru falin eins vel og við getum. Slík vinnubrögð leiða af sér ánægju, góðan starfsanda og góðan árangur.
- Við berum ábyrgð á að sinna okkar námi
- Við berum ábyrgð á okkar námsgögnum
- Við mætum vel undirbúin fyrir daginn
- Við gefum ávallt vinnufrið
- Við berum virðingu fyrir tíma annarra
2. Samskipti
Við látum okkur varða samskipti og líðan nemenda. Samskipti í skólanum skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu og vinsemd. Starfsmenn skólans skulu mæta nemendum með hlýju ásamt festu og öryggi
- Við erum kurteis
- Við sýnum hvort öðru virðingu
- Við erum tillitssöm
- Við förum eftir fyrirmælum starfsmanna
- Við minnum hvort annað á reglur skólans
3. Almenn umgengni
Öll skulu ganga vel um skólann. Snyrtilegt og fallegt vinnu umhverfi eykur vellíðan allra.
- Við göngum vel um skólann okkar og eigur hans, bæði innandyra og utan.
- Við virðum eigur okkar sjálfra og annarra
- Óheimilt er að koma með í skólann þau tæki og tól sem geta valdið skaða
- Starfsmönnum er heimilt að útbúa sérstakar umgengisreglur fyrir hverja starfsstöð og eru sérstaklega hvattir til þess. Þær reglur þurfa að vera skýrar og sýnilegar
4. Skólasókn
Verum ávallt stundvís. Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á skólasókn nemenda og skulu tilkynna leyfi og veikindi eins fljótt og auðið er. Auðarskóli vinnur eftir sérstökum skólasóknarreglum sem öllum ber að kynna sér. Sjá nánar á heimasíðu skólans.
- Við mætum á réttum tíma í kennslustund skv. stundatöflu
- Tilkynna þarf forföll/veikindi fyrir klukkan 9:00 til ritara og umsjónarkennara í síma eða tölvupóst
- Ef leyfi er lengra en 2 dagar skal sækja um það sérstaklega með eyðublaði hjá ritara eða á heimasíðu skólans.
- Foreldrar/forráðamenn skulu láta skólann vita ef nemandi á að fara fyrr úr skólanum t.d til læknis eða annað.
- Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á að nemendur vinni upp það nám sem þeir verða af í leyfum.
5. Heilbrigði
Það er okkur öllum gott að stunda hollar og heilbrigðar lífsvenjur. Ein forsenda þess að við skilum af okkur góðu starfi er að okkur líði vel, við séum í góðu líkamlegu standi, séum vel sofin og borðum orku- og næringarríkan mat.
- Notkun sælgætis og gosdrykkja er óheimil á skólatíma
- Notkun tóbaks, nikótínpúða, rafrettur og annarra vímuefna er stranglega bönnuð.
6. Skólalóð
Mikilvægt er að öll þekki skólalóðina. Við viljum hafa snyrtilega skólalóð og hjálpumst að við að halda henni hreinni.
- Við förum ekki út af skólalóðinni án leyfis starfsfólks
- Við notum ekki hjól, hjólabretti, línuskauta eða rafknúin farartæki á skólatíma.
- Slík tæki eru ávallt á ábyrgð eigenda
- Hjálmaskylda er á Íslandi til 15 ára aldurs.
- Göngum vel um skólalóðina okkar.
🟩 Hópur 1: Ástundun og ábyrgð
- Hvað hjálpar ykkur að mæta undirbúin í skólann?
- Hvernig getum við tryggt vinnufrið fyrir alla í bekknum/skólanum?
- Hvernig má bæta ábyrgð nemenda á eigin námi og námsgögnum?
🟦 Hópur 2: Samskipti og virðing
- Hvernig eru samskipti milli nemenda í dag? Hvað má bæta?
- Hvernig er samskiptum starfsfólks og nemenda háttað?
- Hvernig getum við minnt hvert annað á reglur án þess að rífast?
🟩Hópur 3: Almenn umgengni og umhverfi
- Hvernig gengur nemendum að ganga vel um skólann?
- Hvaða breytingar mætti gera til að bæta umhverfið?
- Eru reglur um tæki og áhöld skýrar? Hvað má skýra betur?
🟦Hópur 4: Skólasókn og stundvísi
- Finnst ykkur allir mæta á réttum tíma? Hvað stendur í vegi fyrir því?
- Er auðvelt að tilkynna veikindi og leyfi? Hvernig getur það verið betra?
- Hvernig geta nemendur betur unnið upp nám sem þeir missa af?
🟩 Hópur 5: Heilbrigði og líðan
- Eru þið sammála reglum um sælgæti og gosdrykki? Hvers vegna / hvers vegna ekki?
- Hvaða hlutverki gegna svefn og næring í líðan og árangri í námi?
- Þarf meiri fræðslu um nikótín, vímuefni og rafrettur?
🟦Hópur 6: Skólalóð og öryggi
- Hvaða reglur gilda á skólalóðinni – eru þær skýrar og sanngjarnar?
- Hvað finnst ykkur um notkun hjóla, hlaupahjóla o.fl. í frímínútum?
- Hvernig tryggjum við öryggi allra á skólalóðinni?
- Eigum við að hafa lóðamörkin sýnilegri ? Þekkja allir hvað skólalóðin liggur ?
Nemendur fengu 25 mínútur til að ræða saman um sinn hluta og koma með ábendingar eða tillögur af breytingum á sinni reglu.
Eftir þann tíma komu allir nemendur saman og hver hópur kynnti sínar umræður og niðurstöður og allir höfðu tækifæri til að bæta við einhverju varðandi þá reglu. Þannig tókum við fyrir hverja reglu.
Punktar og ábendingar sem komu fram á þinginu
- Bæta við koffíndrykkjum og koffín púðum í regluna um heilbrigði.
- Bæta við að nemanda er boðið að hringja sjálfur heim og upplýsa foreldra sína um brot á skólareglu.