Skíðaferðir mið- og elsta stigs 2024
Nemendur á mið- og elsta stigi fóru í skíðaferð á skíðasvæði Tindastóls í síðustu viku febrúar.
Hvor hópur um sig gisti eina og nótt og fengu báðir hópar tvo góða daga í brekkunni.
Í Auðarskóla eru bara duglegir nemendur enda sýndi það sig að þeir gáfust ekki upp
þó í fyrsta skipti væru sumir að stíga á skíði eða bretti. Þeir sem fóru í fyrra héldu áfram
að æfa sig og fóru sífellt hærra og hærra í brekkunni. Fyrsta þrautin er alltaf erfið fyrir þá
sem eru að fara í fyrsta skipti: Að halda jafnvægi í diskalyftunni hvort sem er á skíðum eða bretti.
Þessu náðu nemendur fljótt og fundu það á eigin skinni að æfingin skapar meistarann.
Þeir sem eru lengra komnir æfðu stökk og aðrir sirkusþrautir og höfðu gaman af.
Gilið er alltaf vinsælt sem og hólabrautirnar.
Veðrið lék við iðkendur og fannst sumum erfitt að þurfa að hætta og fara heim.
Markmið skíðaferð eru að nemendur fái að njóta vetraríþrótta og útivistar, fái tækifæri
til að iðka skíði og bretti og síðast en ekki síst að æfa félagslega samskipti og eiga jákvæð
og uppbyggjandi samskipti með bekkjarfélögum. Öllum markmiðum var náð og sigurinn
er nemendanna.