Skólastarf í Auðarskóla

Auðarskóli Fréttir

Nú er þriðja vikan í samkomubanni að klárast. Skólastarf Auðarskóla hefur tekið miklum breytingum á þessum tíma. Leikskólinn er nú opinn fyrir skilgreinda forgangshópa almannavarna og í grunnskólanum eru 1.-4. bekkur í tveimur hópum. Aðrir grunnskólanemendur eru komnir í heimakennslu. Það hefur gengið vel að virkja nemendur í heimakennslu og hafa kennarar sent upplýsingar heim og verið í samskiptum við foreldra og nemendur. Það er rétt að ítreka það að ef foreldrum finnst vanta eitthvað af upplýsingum að hafa þá samband við umsjónakennara síns barns.

Í sveitarstjórn var þessi ályktun samþykkt í gær:
Frá 15. mars, þegar samkomubann tók gildi, miðast reikningar vegna Auðarskóla (tónlistarskóla, mötuneytis og leikskóla) við þá þjónustu sem hefur verið nýtt. Foreldrar/forráðamenn fá endurgreitt það sem ofgreitt hefur verið vegna mars og reikningur vegna apríl mun miða við áætlun út frá stöðunni 30. mars. Uppgjör vegna raunverulegrar notkunar á þjónustu verður síðan gert í júní.

Við viljum ítreka að á Dalir.is eru mikið af upplýsingum varðandi covid19. Þar kemur fram ,, Skólar, leikskólar og íþróttafélög hafa skipulagt vandlega fyrirkomulag næstu daga og vikur til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi og samkomum. Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum.“
Þá hefur sveitarstjórn Dalabyggðar einnig ályktað: ,,Jafnframt ítrekar sveitarstjórn nauðsyn þess að fylgja fyrirmælum almannavarna og sóttvarnarlæknis varðandi blöndun hópa. Það er til lítils að viðhafa sóttvarnastarf og enga blöndun skólahópa á skólatíma ef þeim fyrirmælum er ekki sinnt af foreldrum eftir að skólatíma er lokið.“

Það er sérstaklega mikilvægt að hafa þessi tilmæli í huga núna þegar páskafrí er að hefjast í grunnskólanum. En þetta á einnig að sjálfsögðu við um leikskólabörn.

Í lokin vil ég þakka öllum gott samstarf á þessum sérstöku tímum.

Kær kveðja
Hlöðver Ingi Gunnarsson
Skólastjóri
Auðarskóla