Upplestrarhátíð er hluti af okkar starfi í Auðarskóla. Nemendur 7.b. tekur þátt í þessari hátíð á hverju ári. Við vinnum að því að lesa upphátt á fallegan og áheyrilegan hátt bókmenntatexta og ljóðatexta. Að mörgu er að hyggja eins og líkamsstöðu, tónhæð, tjáningu, tengingu við áheyrendur svo eitthvað sé nefnt. Innan skólans fer fram samkeppni um hverjir fara fyrir hönd skólans í Upplestrarhátíð Vesturlands. Dómarar þessarar keppni eru fengnir úr samfélaginu okkar og oft á tíðum er erfitt að vera í þeirra sporum að velja tvo til að fara fyrir hönd skólans.
Líkt og önnur skólaár hófum við vinnuna kringum 16. nóvember sem er dagur íslenskar tungu, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Mestan þunga settum við þó í vinnuna í febrúar og mars og stefnan var tekin á lokahátíð skólans þann 16. mars.
Óhætt er að segja að babb hafi komið í bátinn vegna þeirrar veiru sem æðir um heiminn og við urðum að fresta keppninni sem var afar svekkjandi þar sem við vorum að fara að halda keppnina okkar. Þráðurinn var þó tekinn upp nú í apríl og nemendur 7. bekkjar fóru í að æfa sig heima. Möguleikinn á að hittast var samt enginn nema með aðstoð tækninnar og það nýttum við okkur. Nemendur voru tilbúnir í að leysa verkefnið á þennan óvenjulega hátt og þökkum við þeim fyrir að vera svona sveigjanleg og jákvæð. Þeir lásu upp texta og ljóð sem tekið var upp og dómarar fengu efnið í hendur.
Okkar fólk í ár í Upplestrarhátíð Vesturlands verða Embla Dís Björgvinsdóttir og Elna Rut Haraldsdóttir. Svanur Þórarinsson er til vara. Óskum við þeim til hamingju og vegni þeim sem best.
Hátíðin verður haldin að Varmalandi þann 19. maí (að öllu óbreyttu).