Viltu komast í Heimsmetabók Guinness?

Auðarskóli Fréttir

Lestrarverkefnið Tími til að lesa hófst í gær, 1. apríl. Verkefnið gengur út á að LESA. Allir Íslendingar, börn og fullorðnir, eru hvött til að skrá allan sinn LESTUR á vefsíðuna timitiladlesa.is. Þar er líka hægt að fylgjast með sameiginlegum lestri þjóðarinnar dag frá degi. Árangurinn er mældur í tíma og ef allir gefa sér góðan tíma í að LESA þá getum við Íslendingar slegið nýtt heimsmet sem yrði fyrsta sinnar tegundar. Verkefnið stendur til 30. apríl og því er um að gera að byrja að skrá. Metið okkar gæti orðið viðmið fyrir aðrar þjóðir og okkur sjálf inn í framtíðina.

Umgjörð og útlit verkefnisins tekur mið af markmiðinu og svipar merki verkefnis til merkja íþróttafélaga. Á vef verkefnis kemur fram að keppnistreyjur verði veittar heppnum þátttakendum í lok verkefnisins.

Auðarskóli hvetur alla íbúa Dalabyggðar til þátttöku og að sjálfsögðu alla nemendur sína, forráðamenn og starfsmenn. Kíktu á vefinn timitiladlesa.is og kynntu þér verkefnið.

Við Íslendingar erum keppnisfólk. Áfram við!