AFS Skiptinemar í Auðarskóla veturinn 2016-2017

admin


Þriðja árið í röð hýsir Auðarskóli í Dölum skiptinema á vegum skiptinemasamtakanna AFS sem gerir skólann okkar nú einn af stærri samstarfsaðilum AFS á Íslandi.  Ber því að fagna hversu opnar fjölskyldur í Dölum eru fyrir því að opna heimili sín fyrir unglingum frá ólíkum menningarheimum og gefa af sér til þessara fósturbarna sinna sem koma allstaðar að úr heiminum.


AFS eru alþjóðleg fræðslusamtök sem byggja á óformlegri og formlegri menntun. Þátttakendur stunda skóla og kynnast nýrri menningu.  Þeir dvelja og sækja skóla í tæpt ár eða skemur í öðru landi.  Þannig eignast þeir nýja vini alls staðar að úr heiminum, kynnast nýrri menningu, tungumáli, háttum og siðum annarra landa.Skiptinemar búa hjá fjölskyldum og ganga í skóla, þeir eru ekki gestir eða ferðamenn í dvalarlandinu.  Þeir gerast fjölskyldumeðlimir og taka þátt í daglegu lífi fólksins á staðnum.Hjá AFS taka fjölskyldur á móti skiptinemum áhugans vegna og fá aldrei greidda þóknun fyrir.


Fyrir tveimur árum voru þær Eva frá Ítalíu og Monika frá Kína í Auðarskóla og bjuggu hjá fósturfjölskyldum sínum hér í Búðardal.  Síðasta skólaár voru það svo Lily frá Þýskalandi og Martin frá Sviss sem einnig stunduðu nám í Auðarskóla og bjuggu í Búðardal.  Þetta skólaárið erum við svo með 3 skiptinema í skólanum sem búa bæði í Búðardal og í sveitinni.

Við fengum að forvitnast aðeins um þessi þrjú ungmenni og fræðast um vonir þeirra og væntingar til skiptinemaársins.

Picture
Claire André

er 15 ára, alveg að verða 16 ára, stelpa frá Lille í norður Frakklandi.

Hún mun dvelja í 10 mánuði á Íslandi, hjá fósturfjölskyldu sinni hér í Búðardal sem eru þau Katrín og Ingvar ásamt Birnu Rún og Eggerti Kára sem er reyndar byrjaður í framhaldsskóla í Reykjavík.

Claire hefur lengi haft áhuga á því að ferðast og nokkrir ættingjar hennar höfðu farið sem skiptinemar og fannst Claire það alltaf áhugavert. Fjölskyldan hennar í Frakklandi hefur líka hýst skiptinema tvisvar sinnum, AFS skiptinema í eitt ár frá Ítalíu og svo einn frá Argentínu í 3 mánuði á vegum Rotary.  Þannig að það hefur verið frekar augljós stefna hjá Claire lengi, að fara sem skiptinemi.

Þegar Claire er spurð um ástæðu þess að hafa valið Ísland þá segir hún að í fyrsta lagi viti Frakkar lítið um Ísland, það er ekki mikið talað um það í Frakklandi og í huga Frakka er það langt í burtu.  Svo fannst henni þetta áhugaverður staður, eyja lengst í norðri, ólíkt því sem hún þekkti og henni fannst spennandi að kynnast því betur.

Enginn skiptinemi kemur til Íslands án þess að heyra spurninguna „how do you like Iceland?“ alloft.  Claire segist elska Ísland, það sé svo fallegt og yndislegt fólk, bara draumi líkast.  Fallegra en á myndum. Hún er rosalega ánægð með að vera í Búðardal sem er lítið samfélag og allir þekkja alla og þannig er hún fljótari að kynnast fólki heldur en ef hún væri í stærra samfélagi.

Það sem Claire hlakkar mest til að upplifa á Íslandi er veturinn.  Hún segir að allir tali um að hér sjáist ekki til sólar í langan tíma en hún er full tilhlökkunar yfir íslenskum vetri.

Hún hlakkar líka til að kynnast fólki hér og að læra að umgangast fólk frá ólíkum sjónarhornum í tengslum við það að upplifa aðra menningarheima. Þá vonast hún til að í framtíðinni muni það hjálpa henni í almennum samskiptum þar sem með svona lífsreynslu læri maður ekki bara á nýjan menningarheim, heldur líka á sína menningu og að þekkja sjálfan sig.

Helsti menningarmunurinn á milli Íslands og Frakklands segir Claire vera það að fara úr skónum allstaðar, bæði heima og í skólanum.  Síðan séu Íslendingar duglegir við að ropa, prumpa og sjúga upp í nefið, sem er allt frekar illa séð í Frakklandi.  Svo er það þetta með sundið, að berhátta sig fyrir framan aðra.  Það var erfitt í fyrstu en þetta er fljótt að venjast og núna finnst henni þetta ekkert mál.

Aðspurð hvað henni þyki merkilegast við Ísland talar hún um að við séum virkilega tæknivædd þjóð en samt í svo mikilli snertingu við náttúruna. Hér séu litlir sveitabæir og kjötið sé mjög gott, enda villt í þessari hreinu náttúru.  Hún nefnir einnig að henni finnist merkilegt hvað við höldum vel í hefðir og að við t.d. trúum á þjóðsögur og þekkjum þær vel.  Henni finnst þetta mjög mikilvægt og eitthvað sem við megum ekki týna niður því með þessu vitum við betur hver við erum.

Í lokin vill Claire koma því á framfæri að Ísland sé fallegt land með vingjarnlegu fólki.


Picture
Gabriel Evangelista Piexoto Pinto

er 16 ára strákur frá Brasilíu.  Hann er frá borginni Vitória í héraðinu Espirito Santo sem er rétt norður af Rio de Janeiro.

Hann mun dvelja á Íslandi í 10 mánuði hjá fósturfjölskyldunni sinni á Dunkárbakka, þeim Steina, Emmu og Stefáni Inga.  Joshua sonur Emmu frá Filipseyjum býr einnig hjá þeim sem stendur.

Í Brasilíu þarf að taka einskonar próf til að athuga hvort þú getir orðið skiptinemi.  Fjölskylduvinur þeirra var að fara sem skiptinemi og mamma Gabriels spurði hvort hann vildi ekki prufa að taka svona próf.  Í upphafi var það s.s. hugmynd móður hans að verða skiptinemi en þegar hann var búinn að taka prófið varð hann mjög spenntur fyrir þessu.

Í upphafi hafði Gabriel hug á því að fara til Kanada en þá var bara laust pláss í frönskumælandi Kanada sem hann hafði svona síður áhuga á.  Þá spáði hann í Nýja-Sjáland en hann var ekki á réttum aldri fyrir það land.  Þá stakk AFS í Brasilíu upp á nokkrum löndum við hann og Ísland var eitt þeirra.  Hann vissi ekkert um Ísland en ákvað að „googla“ upplýsingar um það, leist vel á og sló til.

Eins og aðrir fær Gabriel spurninguna „how do you like Iceland?“.  Hann svarar að bragði að það sé fallegt og fólkið sé vingjarnlegt.  Á komunámskeiði skiptinemanna varaði AFS þau við því að íslendingar gætu verið mjög lokaðir og erfitt að kynnast þeim. Gabriel segir að það hafi ekki verið raunin hér í Búðardal, allir hafi strax verið mjög vingjarnlegir og hann eigi nú þegar fullt af vinum.

Það sem hann hlakkar mest til að upplifa á Íslandi er að eiga góðan tíma með fósturfjölskylunni sinni og vinum.  Einnig er hann spenntur fyrir að upplifa menninguna og læra á hana.  Hann vonast til þess að læra góða ensku og einnig íslensku á meðan á dvölinni stendur sem og að læra að þekkja sjálfan sig betur til að kunna betur að leysa úr eigin málum.

Helsta menningarmuninn á milli Íslands og Brasilíu segir Gabriel vera að skólinn sé miklu frjálsari á Íslandi.  Í Brasilíu er allt miklu strangara og meiri stjórnun á því hvað á að gera hvenær.  Hérna eru krakkarnir sjálfstæðari í vinnubrögðum, vinna sjálfstætt á sínum hraða og hver hugsar um sig.  Hann tekur dæmi um járnsmíði tíma sem hann er í hér, þar sem nemendum er frjálst að gera nokkurnvegin það sem þau vilja og kennarinn treystir þeim til að gera það sem þau langar þar.  Í Brasilíu væri margt af því bara talið hættulegt og þá líkilega ekki leyft.  Hér s.s. trúir kennarinn á þig og gefur þér frjálsar hendur í þínu eigin námi.  Þessi munur kom honum á óvart.

Það sem kom honum líka á óvart og er í raun mjög merkilegt er hvað fósturfjölskyldan hans hérna á Íslandi er lík fjölskyldunni hans heima.Í lokin vill Gabriel koma því á framfæri að hann er ánægður að vera á Íslandi 🙂


Picture
Lilian Anne Clara Reichel

er 15 ára stelpa frá Þýskalandi.  Hún er fædd í Berlín og foreldrar hennar eru þaðan. Hún hefur búið í Danmörku, í Kaupmannahöfn, síðan árið 2007 þegar hún var aðeins 6 ára gömul og kemur því til Íslands í gegnum AFS í Danmörku.

Hún ætlar að dvelja á Íslandi í 10 mánuði hjá fósturfjölskyldu sinni á Leiðólfsstöðum, þeim Þóreyju og Steina ásamt Söru Björk, Aðalheiði Rós og Þóri Fannari.

Lilian hefur lengi haft mikinn áhuga á Íslandi og langaði mikið að komast til Íslands á einhvern hátt.  Það var síðan í raun mamma hennar sem fann AFS fyrir hana og þannig var ákvörðunin tekin um að koma sem skiptinemi hingað til lands.

Hún hefur um nokkurt skeið stundað hestamennsku á Íslenskum hestum og hefur heillast af Íslandi og íslenskri náttúru í gegnum það sem hún hefur kynnst.  Landslagið hérna heillar hana alveg sérstaklega og einnig finnst henni áhugavert hvað þetta er lítil þjóð.

Þegar Lilian fær vinsælu spurninguna „how do you like Iceland?“ brosir hún breitt og nefnir strax landslagið og náttúruna, þetta sé allt frábært og fólkið hérna sé líka vingjarnlegt.  Þetta sé mjög ólíkt Kaupmannahöfn og kannski sérstaklega það að fara úr þessari stóru borg yfir í að búa á sveitabæ.  En henni finnst frábært að upplifa þetta.

Það sem Lilian hlakkar mest til að upplifa á Íslandi er einfaldlega þessi nýja reynsla og að læra um þennan nýja stað sem hún kallar heima.  Hún væntir þess líka að öðlast meira sjálfsöryggi í gegnum þessa reynslu, auka þekkingu sína, þroskast og verða víðsýnni.

Menningarmunurinn á milli Íslands og Danmerkur er svo sem ekki mikill en það sem hún helst tekur eftir er þessi litla og nána þjóð, allir þekkja alla og maður þekkir alltaf einhvern sem þekkir þann sem maður er að tala við.

Það sem Lilian finnst merkilegast við Ísland er náttúran.  Náttúran er hennir mjög ofarlega í huga og því oft fyrsta svarið við spurningum hennar 🙂