Stelpurnar okkar gerðu góða hluti í glímu um helgina

admin


Eins og sjá má á frétt Skessuhorns í dag voru nokkrar stelpur úr Auðarskóla að gera góða hluti í glímu um helgina.

​Grunnskólamót í glímu var haldið í Reykjanesbæ um liðna helgi. Á vefsíðu Glímusambands Íslands segir að mótið hafi gengið vel fyrir sig og fóru keppendur ánægðir heim. Glímudrottning okkar dalamanna, Svana Hrönn Jóhannsdóttir, nýkjörin formaður Glímusambands Íslands, var mótsstjóri.

Nemendur úr Auðarskóla í Búðardal gerðu mjög góða hluti á mótinu og fóru heim með fimm verðlaun. Þar af var Embla Dís Björgvinsdóttir grunnskólameistari stúlkna í 5. bekk. Jasmin Hall Valdimarsdóttir, Birna Rún Ingvarsdóttir og Jóhanna Vigdís Pálmadóttir fóru allar heim með silfur og Dagný Þóra Arnarsdóttir vann til bronsverðlauna.

Stúlkurnar okkar sem kepptu á mótinu má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Þær eru, talið frá vinstri:

Birna Rún Ingvarsdóttir, Embla Dís Björgvinsdóttir, Jasmín Hall Valdimarsdóttir, Dagný Þóra Arnarsdóttir, Kristey Sunna Björgvinsdóttir, Jóhanna Vigdís Pálmadóttir og Dagný Sara Viðarsdóttir.