AFS Skiptinemar í Dalabyggð veturinn 2015-2016

admin

Picture
AFS eru alþjóðleg fræðslusamtök sem byggja á óformlegri og formlegri menntun. Þátttakendur stunda skóla og kynnast nýrri menningu.  Þátttakendur dvelja og sækja skóla í tæpt ár eða skemur í öðru landi.  Þannig eignast þeir nýja vini alls staðar að úr heiminum, kynnast nýrri menningu, tungumáli, háttum og siðum annarra landa.

Skiptinemar búa hjá fjölskyldum og ganga í skóla, þeir eru ekki gestir eða ferðamenn í dvalarlandinu.  Þeir gerast fjölskyldumeðlimir og taka þátt í daglegu lífi fólksins á staðnum.

Hjá AFS taka fjölskyldur á móti skiptinemum áhugans vegna og fá aldrei greidda þóknun fyrir.

Í vetur dvelja tveir skiptinemar á vegum AFS hér í Búðardal og fengum við leyfi til að forvitnast örlítið um þá:
Lily Johanna Dahl
er 15 ára, alveg að verða 16 ára, stelpa frá Þýsklandi.


Hún er fædd og uppalin í Berlín, sem er höfuðborg Þýskalands.


Lily mun dvelja í 10 mánuði á Íslandi, hjá fósturfjölskyldu sinni í Búðardal, þeim Jónínu Kristínu og Jóni Leví.
Hún fékk hugmyndina að því að fara sem skiptinemi þegar bróðir hennar fór að vinna á munaðarleysingaheimili á Indlandi.  Þá sá hún að það væri möguleiki að fara erlendis og upplifa eitthvað nýtt. Sú hugmynd þróaðist frá því að fara í tungumálaskóla yfir í ársdvöl sem skiptinemi. Hún fann svo þennan möguleika að verða AFS skiptinemi þegar hún leitaði á internetinu að möguleikum á að fara til Íslands.
Lily hefur alltaf verið spennt fyrir norðurlöndunum og þeirra menningu. Draumurinn um að fara til Íslands kviknaði þegar hún kom í sumarfrí hingað með fjölskyldu sinni árið 2010. Þá keyrðu þau hringinn í kringum landið og fóru einnig út á Snæfellsnes.
Spurningin sem allir spurja „How do you like Iceland“ er henni ekki ókunnug. Hún er mjög hrifin af Íslandi og er ánægð með að fá tækifæri til að vera hér lengur en bara í sumarfríi.  Síðan bætir hún því við að Ísland sé fallegt.
Hún hlakkar mest til að lifa lífinu eins og Íslendingur, læra íslensku, fara í réttir og annað „þjóðlegt“.  Hún hlakkar líka til samkiptanna við aðra skiptinema sem koma allstaðar að úr heiminum og að öðlast meira sjálfstraust.
Áður en Lily fékk upplýsingarnar um hvar hún mundi búa á Íslandi vonaðist hún til þess að hún mundi búa nálægt sjónum og varð sá draumur að veruleika. Hún vonast til að upplifa þjóðlegar hefðir og vill fá sem mest út úr dvölinni.  Í lok dvalarinnar vonast hún til að geta horft til baka og verið ánægð með reynsluna og það sem hún gerði úr henni.
Aðspurð um helsta menningarmuninn á milli Íslands og Þýskalands þá staldrar hún aðeins við og segir að skiptinemarnir hafi verið varaðir við því á komunámskeiði þegar þau komu fyrst til landsins að Íslendingar væru frekar lokaðir og gæti verið erfitt að kynnast þeim.  Hennar upplifun hefur hinsvegar verið sú að Þjóðverjar séu mun kaldari í framkomu og Íslendingar hafi tekið á móti henni með mikilli hlýju og vinsemd.  Skólakerfið er mjög ólíkt og nefnir hún þá helst andann í skólanum. Henni finnst sú hefð að fara úr skónum þegar maður fer inn í skólann gera stemmninguna notalegri. Hún segir nemendur hér sjálfstæðari en í Þýskalandi og opnari samskipti á milli nemenda og kennara.
Lily finnst einna merkilegast við Ísland að fólk skuli í raun búa hérna á þessari eyju lengst norður í hafi og að við vinnum mikið í að vernda náttúruna. Að hennar sögn vinna Þjóðverjar meira að því að eyðileggja náttúruna, þ.e.a.s. í huga fólks, þeim finnst náttúran ekki falleg eða merkileg.
Þegar hún er spurð hvort það sé eitthvað í lokin sem hún vill koma á framfæri, segir hún einfaldlega. „TAKK“Picture


Martin Caloz
er 15 ára strákur frá Sviss.


Hann er frá Pampigny, litlu þorpi, með uþb. 1000 íbúa nálægt borginn Lausanne við Genfarvatn, sem er í frönskumælandi Sviss.


Martin mun dvelja í 10 mánuði á Ísland, hjá fósturfjölskyldunni sinni í Búðardal sem eru þau Katrín Lilja, Ingvar Kristján, Eggert Kári og Birna Rún. Á hemilinu eru líka tveir hundar og einn köttur.


Honum finnst gaman að ferðast og á vinkonu sem fór sem skiptinemi með AFS til Þýskalands. Hún talaði mikið um hversu æðislegt það var og varð Martin spenntur fyrir samskonar reynslu.  Þannig fékk hann hugmyndina að því að fara sem skiptinemi.


Ástæðan fyrir því að Martin valdi að koma til Íslands er sú að hann kom hingað með fjölskyldu sinni í tveggja vikna ferðalag árið 2013.  Þau keyrðu til Húsavíkur, gengu síðan þvert yfir landið að Eyjafjallajökli og keyrðu svo þaðan til Reykjavíkur. Honum fannst Ísland æðislegt og fannst því kjörið tækifæri að gerast skiptinemi á Íslandi.


Þegar Martin fær hina klassísku spurningu „how do you like Iceland“ svarar hann að bragði: „Frábært“.


Hann hlakkar mest til að fá að upplifa land og menningu og uppgötva nýja hluti um Íslands.


Martin vonast til að þroskast í gegnum þessa reynslu og að læra ný tungumál, bæði íslensku og ensku. Einnig vonast hann til að eignast nýja vini, bæði íslenska sem og aðra skiptinema allstaðar að úr heiminum.


Þegar hann er spurður um hvað hann haldi að sé stærsti menningarmunurinn á milli Íslands og Sviss segir hann að Íslendingar ropi meira. Í Sviss er það ekki vel séð.


Hann er spurður að því hvað honum þyki merkilegast við Ísland og þá er svarið einfaldlega að það sé fallegt land.


Það sem Martin vill koma á framfæri í lokin er að honum finnst þetta frábær reynsla og er mjög ánægður að vera hérna.