Auðarskóli með viðamikið átak í fræðslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum

admin Fréttir

Í október 2012 var efnt til málþinga víða um land undir kjörorðunum „Vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.“ Verkefnið er liður í sáttmála Evrópuráðsins sem Ísland er aðili að.  Fulltrúi frá Auðarskóla sótti ráðstefnuna og  hefur síðan verið tengiliður skólans gagnvart verkefninu.

Í vetur hafa bæði starfsfólk og nemendur Auðarskóla fengið fræðslu um hvað kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er og hvernig skal bregðast við slíku. Fólk frá Blátt áfram og verkefnisfulltrúi Auðarskóla veitti fræðsluna auk þess sem skólahjúkrunarfræðingur hefur veitt nemendum fræðslu um efnið.  Skólinn tryggði öllum nemendum og starfsmönnum fræðslu á eftirfarandi hátt:

Nemendur í 1. bekk fengu fræðslu hjá hjúkrunarfræðingi
Nemendur í 2.-3. bekk sáu fræðslumyndina „Leyndarmálið“. Einnig kom til þeirra ferðaleikhús með leikritið „Krakkarnir í hverfinu“.
Nemendur 4. bekkjar sáu fræðslumyndina „Leyndarmálið“
Nemendur 5.-6. bekkjar sáu fræðslumyndina „Leyndarmálið“ auk fræðslufyrirlestrar frá verkefnifulltrúa Auðarskóla.
Nemendur 7.- 10. bekkjar fengu fræðslufyrirlesturinn „Lífsleikni fyrir unglinga“ sem starfsmaður frá Blátt áfram hélt.
Nemendur 9. og 10. bekkjar sáu myndina „FÁÐU JÁ“ og umræður með umsjónarkennara, verkefnisfulltrúa og skólahjúkrunarfræðingi.  Auk þess fengu nemendur 9. og 10. bekkjar fræðslufyrirlestur frá verkefnifulltrúa Auðarskóla.
Í öllum bekkjum var dagskránni fylgt eftir með umræðum.

Á starfsdegi Auðarskóla 2. janúar 2013 kom starfsmaður frá Blátt áfram með fræðsluefnið „Verndarar barna“ fyrir starfsfólk allra deilda skólans. Auk þess hafa starfsmenn grunnskóla fengið fyrirlestur um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum frá verkefnisfulltrúa Auðarskóla.