Ferðalag í Geitfjársetrið

admin

​Leikskólabörn af Tröllakletti og verðandi 1. bekkingar ásamt starfsfólki leikskólans fóru í ferðalag að Háafelli í Borgarfirði í Geitfjársetrið í gær, fimmtudaginn 20. ágúst. Veðrið var eins og best var á kosið og allir mjög spenntir að fá að fara í rútu. Geiturnar tóku vel á móti okkur eins og staðarhaldirinn hún Jóhanna. Geitur eru einstök dýr, miklir mannvinir og finnst gott að fá knús. Það fengu kiðlingarnir a.m.k. í ómældu magni. Hænur og vinnutæki drógu líka að sér athygli. Ný orð bættust í orðaforðann og við lærðum að skinn af geitum heita „stökur“ og ull af geitum flokkast í „strí“ og „fiðu“ en ekki „tog“ og „þel“. Nesti var borðað í móttökunni á setrinu og þar fengu börnin einnig smá fræðslu um geiturnar. Heimsóknir í Geitfjársetrið eru alltaf dásamlegar og allir héldu glaðir heim.