Fulltrúi Dalabyggðar á barnaþingi 2023

Auðarskóli Fréttir

Barnaþing 2023 var haldið föstudaginn 17. nóvember í Hörpu. Barnaþing gefur stjórnvöldum tækifæri á að fylgja hugmyndum barnaþingmanna eftir og koma tillögum þeirra í framkvæmd. Embættinu ber að boða fjölbreyttan hóp barna til þingsins, alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna. Við upphaf þingsins leggur umboðsmaður barna fram skýrslu um stöðu barna á Íslandi, þar sem m.a. er farið yfir þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna ákveður önnur verkefni þingsins. Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Áhersla er lögð á að efla möguleika barna til þess að hafa áhrif á eigin líf og umhverfi. Börn voru valin á þingið með slembivali með úrtaki úr Þjóðskrá til að tryggja þátttöku fjölbreytts hóps barna frá öllu landinu. Auðarskóli átti fulltrúa á þinginu hann Grétar Bæring í 6. bekk. Hann lagði það til að skóladagur barna yrði styttur og að hlustað yrði meira á raddir barna.
Hægt er að lesa meira um barnaþingið hér og niðurstöður þess
Hann gerði sér einnig lítið fyrir og nældi sér í titilinn Íslandsmeistari í leiknum „Skæri, blað, steinn“.