Samningur um SKÓLAÞJÓNUSTU

Auðarskóli Fréttir

Samningur hefur verið gerður við Ásgarð skólaráðgjöf um sérfræðiþjónustu við skólann. Á vef Dalabyggðar þann 25. júlí sl. birtist eftirfarandi frétt:
Í reglugerð nr. 444/2019 um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum kemur m.a. fram að: „Sveitarfélög skulu tryggja að viðeigandi skólaþjónusta sé veitt í leik- og grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan skóla.“

Byggðarráð Dalabyggðar samþykkti á 311. fundi sínum samning Auðarskóla við Ásgarð skólaráðgjöf um sérfræðiþjónustu við starfsfólk Auðarskóla, leik- og grunnskóla sveitarfélagsins og framkvæmd menntastefnu ríkisins.

Ásgarður býður upp á sérfræðiþjónustu við framkvæmd skólastarfs í leik- og grunnskólum. Markmið samningsins er fyrst og fremst að efla Auðarskóla sem faglega stofnun með kerfisbundnum stuðningi við stjórnendur, kennara og starfsfólk skólans og sveitarfélagsins.

Í samkomulagi Ásgarðs og Dalabyggðar verður unnið eftir nokkrum áherslum, m.a. að sýn og stefna sveitarfélagsins sé skýr og skólastefna/menntastefna endurspegli vilja sveitarfélagsins til umbóta í skólamálum, fjármagn sé vel nýtt og starfshættir beri skýr einkenni gæðastarfs, heilbrigt hlutfall sérkennslu og skýr markmið um árangur og að skólastarf uppfylli skilyrði skólastefnu sveitarfélagsins og menntastefnu ríkisins.

Það er mikið fagnaðarefni fyrir allt skólastarf Auðarskóla að ná þessum áfanga. Hér hefur stór áfangi átt sér stað í skóla- og menntamálum í Dölunum, líkt og haft var eftir skólastjóra:

Stór áfangi er í höfn í skóla- og menntamálum hér í Dalabyggð með tilkomu samnings Auðarskóla við Ásgarð. Við munum nýta þjónustuna fyrst og fremst til að auka gæði skólastarfsins fyrir börnin og nemendur okkar. Til þess að svo megi verða þurfum við hér í Dalabyggð að móta skýra og sterka skóla- og menntastefnu öllum börnum til hagsbóta. Segja má að við stöndum á ákveðnum krossgötum í skólastarfinu og það er ánægjulegt að fá að leiða það starf. Ég er sannfærð um að samningurinn veiti okkur þau „tól og tæki“ í átt að betri gæðum enda er mannauður skólans og foreldrasamfélagið gott og sterkt og með áframhaldandi góðri samvinnu og jákvæðni getum við saman hámarkað árangurinn.